fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Vitlaus dómur yfir Hannesi

Egill Helgason
Fimmtudaginn 13. mars 2008 22:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

laxness1.jpgx8.jpg

Ég hef stundum vitnað í kvæði eftir Kipling sem er svona:

When ‘Omer smote ‘is bloomin’ lyre,
He’d ‘eard men sing by land an’ sea;
An’ what he thought ‘e might require,
‘E went an’ took — the same as me!

The market-girls an’ fishermen,
The shepherds an’ the sailors, too,
They ‘eard old songs turn up again,
But kep’ it quiet — same as you!

They knew ‘e stole; ‘e knew they knowed.
They didn’t tell, nor make a fuss,
But winked at ‘Omer down the road,
An’ ‘e winked back — the same as us!

Kvæðið fjallar um það að skáld fá ýmislegt að láni, taka það traustataki, stundum ófrjálsri hendi. Halldór Laxness var býsna öflugur ritþjófur á sinni tíð, eða réttar sagt, hann stældi, sneiddi, skar og stal smávegis. Ekki var nú heimildanna alltaf getið, en allir vissu til dæmis að hann byggði Heimsljós á sögu Magnúsar Hjaltasonar, skáldsins frá Þröm.

Eiríkur Jónsson skrifaði heila bók um aðföng Íslandsklukkunnar. Sýndi vel Halldór hvernig notaði efni úr ýmsum áttum. Þessu var almennt illa tekið. Svona átti ekki að fjalla um Nóbelskáldið. Eiríkur hefur aldrei notið sannmælis fyrir þetta verk.

Nú er búið að dæma Hannes H. Gissurarson í háa sekt – auk feiknarlegs málkostnaðar – fyrir fyrsta bindi af ævisögu Laxness sem hann skrifaði árið 2003. Ég hef reyndar sagt áður að fyrstu kaflar þeirrar bókar hafi verið heldur klaufalega samdir – það var fljótaskrift á þeim, alltof mikið var stuðst við endurminningabækur Halldórs Laxness – sem margir telja reyndar að sé vond heimild. Og jú, það vantaði sums staðar gæsalappir.

En að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða – æ, það er bara alveg fráleitt.

Hins vegar fengu margir þetta á heilann, ekki síst fólk sem tengist Reykjavíkurakademíunni. Um daginn barst mér í hendur einhvers konar afmælisrit fyrir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing fimmtugan. Ég fletti bókinni og sá að þarna var verið að fjalla um Hannes. Það flökraði að mér að þessi meinti ritstuldur væri líkt og hið eina sem hafði drifið á daga þeirra í Reykjavíkurakademíunni; eini háskinn sem þetta fólk hafði lent í.

Að líf þess hefði verið gjörsamlega viðburðasnautt ef Hannesar hefði ekki notið við.

Hópur fræðafólks – og sumir fjölmiðlar – eyddu ótrúlegu púðri í þetta mál. Aðalástæðan var auðvitað sú að Hannes var ekki talinn heppilegur maður til að skrifa um Halldór. Hann átti ekkert með það. Hann tróðst inn í vitlaust partí.

Margir hafa reyndar haft uppi miklar ræður um sig um bækur Hannesar án þess að hafa nokkurn tíma lesið þær. Þeir vita barasta að þetta er vont. Þetta heyrði maður þegar mestu deilurnar um bókina stóðu yfir. „Ég þarf ekki að lesa bókina, ég veit að hún er vond,“ voru orð eins fræðaþulsins. Þetta má líka lesa í pistli sem Eiríkur Norðdahl skrifaði í dag.

Þetta fólk veit ekki og vill ekki vita annað og þriðja bindi verksins eru mjög læsileg. Þarna er dreginn saman heilmikill fróðleikur um Halldór Laxness; aðferð Hannesar er gjörólík hinni knöppu frásögn Halldórs Guðmundssonar. Hannes er meira lausskrifandi, hefur meiri áhuga á bæjarslúðri og kjaftasögum – stundum slær það alveg út í íslenska fyndni hjá honum. En fyrir þá sem hafa áhuga á Halldóri Laxness er heilmikið á þessum bókum að græða – og alveg fráleitt að honum sé sýnd nokkur óvirðing í þeim.

Bara alls ekki.

— — —

Annars skrifaði ég eftirfarandi grein um þessi mál fyrir nokkrum árum. Ég sé ekki betur en að flest sem stendur þarna eigi ágætlega við ennþá:

„Enn eru menn byrjaðir að þrefa um Halldór Laxness. Það er aldeilis að það er púður í karlinum. En deiluefnin verða sífellt obskúrari. Maður er eiginlega alveg hættur að fylgjast með. Mogginn bregst hart við og reynir að sýna fram á að hann hafi fagnað einlæglega þegar Halldór fékk Nóbelsverðlaunin, „Hver er Mogginn?“ spyr Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur. Það er góð spurning.

Hannes Gissurarson kemur kannski ekki út með annað bindið af ævisögu Halldórs í ár. Í staðinn skrifar hann greinar í gríð og erg og heldur fyrirlestra. Hann er að marka sér svæði eins og hundur við þúfu. Fólkið sem er á hannesarvaktinni bregst ókvæða við – það eru held ég ósjálfráð viðbrögð. Þegar Hannes segir Laxness verða sumir alveg brjálaðir. Gauti Kristmannsson skrifar í Moggann í fyrradag og segir að Hannes standi í pólitískum ofsóknum gegn merkasta rithöfundi Íslendinga á síðustu öld.

Öndum aðeins rólega. Mér fannst skemmtilegt margt af því sem Hannes sagði um Atómstöðina á Hugvísindaþinginu – hann kallaði hana „andreykjavíkursögu“. Og það er engin goðgá þó hann segi að hún sé byggð á tékkneskri bók. Kann vel að vera. Þannig vann Halldór, stældi og stal, klippti og skar. Snæfríður Íslandssól er ættuð úr Gone With The Wind. Og ekki get ég séð að Hannes sé að lítilsvirða Halldór þótt hann segi frá því að ekki hafi verið einhugur um að hann fengi Nóbelsverðlaunin. Það er ekki sérlega djörf fullyrðing.

— — —

Annars eru margir farnir að stynja þreytulega þegar minnst er á kommúnisma Halldórs Laxness. Sem hlýtur að verða rauði þráðurinn í öðru bindi Hannesar – það á að ná frá sirka 1930 til 1950, spannar semsé tíma Stalíns. Í Víðsjárþáttum heyrir maður póstmódernísk andvörp líða úr útvarpsstækinu. Maður fór að greina þau eftir að Hallgrímur gaf út Höfund Íslands. Eins og þetta sé afgreitt mál. Gamlar lummur. Staðnað.

Ég fatta þetta samt ekki alveg. Ég hef svo gamaldags lífsskoðun að mér finnst það skipta ansi miklu máli að höfuðskáld okkar aðhylltist stærstu lygi tuttugustu aldarinnar, sat Búkharín-réttarhöldin í Moskvu fagnandi, sá fólk flutt burt af lögreglunni, horfði á soltinn tötralýð – en sagði svo blygðunarlaust ósatt um allt klabbið.

— — —

Það er líka hugsanlegt að það sé talsverð Laxness-þreyta í þjóðinni. Ákveðin mettun. Samt eru tvær stórar ævisögur á leiðinni, bók Halldórs Guðmundssonar og annað og þriðja bindi Hannesar. Á næsta ári verða fimmtíu ár frá Nóbelsverðlaununum. Úff.

Það mætti kannski reyna að gera eitthvað til að ýta undir áhugann, til dæmis að hafa sérstakt réttarhald yfir Hannesi – hvaða annar staður kemur til greina en Reykjavíkurakademían? Þar yrði hann látinn svara til saka fyrir að vera boðflenna, fyrir að abbast upp á Nóbelskáldið og minningu þess. Sækjendur væru þá Gauti Kristmannsson og Helga Kress, verjandi kannski Gísli Marteinn eða einhver álíka léttvægur, en í dómarasætið væri hægt að setja Eirík Guðmundsson sem jafnframt myndi flytja pistla í Víðsjá.

Ákæran yrði flutt við mikinn fögnuð akademíkera og prjónakerlinga – tricoteuses – sem vildu koma að sjá showið, en ákæruræðan myndi hljóma einhvern veginn svona, flutt af ofsafengnu hannesarofnæmi:

„Það er það sorglega í þessu máli öllu, að höfundi, sem dæmt hefur sig vanhæfan með aðferðum sínum, skuli leyfast, óhindruðum af eðlilegum takmörkunum siðlegrar umræðu í fjölmiðlum, að halda uppi linnulausum árásum á merkasta rithöfund þjóðarinnar fyrir pólitískar skoðanir hans, löngu eftir að þær eru hættar að skipta nokkru máli í umræðu samtímans og löngu eftir að hann er fær um að bera hönd fyrir höfuð sér. Það er mál að linni.“ (Sbr. grein Gauta Kristmannssonar, Mbl. 25. október 2004.)

Refsingin verður fyrirframákveðin. Hannesi verður bannað að skrifa meira – það getur ekki orðið vægara. Þetta verða sýndarréttarhöld.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus