fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Er heimilt að gagnrýna fræðin?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. apríl 2008 10:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég sé að ég verð þess heiðurs aðnjótandi að Árni Finnsson og Hjörleifur Guttormsson skrifa um mig greinar í blöðin í dag, Árni í Fréttablaðið og Hjörleifur í Morgunblaðið.

Árna mislíkar að ég skuli hafa kallað Glúm Jón Björnsson efnafræðing í viðtal vegna hingaðkomu Als Gore.

Vegna þessa kemst Árni að þeirri niðurstöðu að ég sé í liði með öfgahægrimönnum.

Þetta er afbrigði þess sem kallast reductio ad Hitlerum í rökfræði. Þú hefur rangt fyrir þér vegna þess að með orðum þínum tengist þú vondum mönnum.

Annars þarf Árni ekki að kvarta undan því að offramboð sé af Glúmi Jóni Björnssyni í fjölmiðlum. Fyrir hvert eitt skipti sem Glúmur birtist held ég að Árni sé að minnsta kosti þúsund sinnum í sjónvörpum landsmanna.

Enda er Árni atvinnumaður í umhverfisvernd.

Það er reyndar merkilegt að með grein sinni upplýsir hann að Náttúruverndarsamtök Íslands séu ekki fyrir hægrimenn. Þau eru semsagt til vinstri. Maður hélt að náttúruvernd skilgreindi sig ekki á vinstri-hægri ásnum.

Grein Hjörleifs er sama marki brennd. Maður hefur vitlaust fyrir sér af því maður er ekki í réttu liði og tekur ekki undir með því sem „allir“ eru að segja.

Í hvorugri greininni er reynt að svara hinni efnislegu gagnrýni sem beinist meðal annars að fullyrðingum um tuttugu feta hækkun á yfirborði sjávar, borgir sem fari undir vatn, drukknandi ísbirni, því að fellibylurinn Katrine hafi stafað af gróðurhúsaáhrifum, aukna tíðni ofsaveðurs, stöðvun Golfstraumsins.

Allar þessar staðhæfingar má finna í mynd Gores – sem kýs líka að líta alveg framhjá hitasveiflum í sögunni með framsetningu sinni á svokölluðu íshokkíkylfulínuriti – og þær eru annað hvort rangar eða mjög hæpnar.

Þegar svo er litið til þess að Gore lifir engan veginn samkvæmt fræðum sínum, að hann á stórar uppljómaðar húseignir, kaupir fasteignir við sjávarsíðuna í San Fransisco flóa, að af fræðum hans leiðir stórkostlegur bisness með útblásturskvóta þar sem hann á hagsmuna að gæta og að hann tekur morð fjár fyrir fyrirlestra sína og kolefnisspúandi ferðalög – er þá furða að manni detti í hug að hann sé charlatan?

Í þessu framhaldi bendi ég á prýðilegan leiðara Fréttablaðsins í dag. Hann er skrifaður af Auðuni Arnórssyni og fjallar um hvort eðlilegt sé að beita ýkjum – alarmisma – í þágu málstaðar. Því staðreyndin er sú að fræði Gores eru full af rangfærslum. Það er ekki tilviljun að Gore vill ekki ræða við þá sem gagnrýna hann.

Og hitt er líka staðreynd að hnattræn hlýnun hefur stöðvast um sinn. En því er spáð að hún gæti hafist aftur árið 2009.

Hér er grein Auðuns:

„Verið hrædd! Heimurinn er að bráðna! Hundruð milljóna manna munu lenda á vergangi vegna loftslagsbreytinga!

Það er út á svona upphrópanir sem Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur skapað sér nýjan grundvöll heimsfrægðar. Þær hafa meira að segja fært honum friðarverðlaun Nóbels. Sú ákvörðun norsku Nóbels-nefndarinnar var einmitt rökstudd þannig að með því að vekja ráðamenn heimsbyggðarinnar í nútímanum til vitundar um loftslagsbreytingarnar væri skapaður þrýstingur á þá að gera það sem í þeirra valdi stæði til að fyrirbyggja það að til þess komi að hundruð milljóna manna lendi á vergangi í framtíðinni, því slík þróun myndi augljóslega leiða til ófriðar og hörmunga.

Frá því Gore gerði víðfræga kvikmynd sína „Óþægilegur sannleikur“ fyrir tveimur árum hefur hann ferðast um heimsbyggðina og flutt fólki boðskap sinn í máli og myndum. Í gær flutti hann Færeyingum pistilinn. Og í dag er röðin komin að Íslendingum.

Meðverðlaunahafar Gores, þær þúsundir vísindamanna frá öllum heimshornum sem tekið hafa þátt í starfi Vísindaráðgjafarnefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, nálgast þetta viðfangsefni með ólíkum hætti en hann. Þeir vilja ekki fullyrða meira en staðreyndir gefa tilefni til, og hvað telst vera staðreynd koma þeir sér fyrst saman um. Þeir ástunda ekki upphrópanir um að við mannkyninu blasi ógn og skelfing vegna eigin óhófsneyzlu á gæðum jarðar. Með öðrum orðum ástunda þeir ekki „alarmisma“. Enda eru nógu margir aðrir til að taka það hlutverk að sér. Og það er reyndar gott að einhver geri það, því það er fyrst með „alarmisma“ sem athygli fjöldans næst. Varlega orðaðar málamiðlunarformúleringar vísindamannanna eru miklu síður til þess fallnar.

Boðskapur Als Gore er ótvíræður alarmismi. Sem dæmi má nefna að í „Óþægilegum sannleika“ fullyrðir Gore að hlýnun loftslags sé svo hröð að Grænlands- og heimskautaísinn sé óðum að bráðna og það geti á þessari öld leitt til allt að sex metra (20 feta) hækkun sjávarmáls. Það muni sökkva heilu milljónaborgunum í öllum heimsálfum. Í skýrslu IPCC er hins vegar ekki neinar þær upplýsingar að finna sem réttlæta slíka heimsendaspá. Þar segir öllu heldur, að sjávarmál kunni að hækka á þessari öld um 18-59 sentímetra. Gore gerir líka mikið úr þeim möguleika að Golfstraumurinn stöðvist þótt fræðimenn telji það afskaplega ósennilegt.

Alarmismi grundvallaður á ýkjum og oftúlkunum er gagnrýniverður. Hann kann jafnvel að hafa þveröfug áhrif. En að sama skapi er varhugavert að gera lítið úr loftslagsvandanum, eins og ýmsir af hörðustu gagnrýnendum Gores hafa tilhneigingu til að gera. Það er hollt að hugsandi fólk um allan heim rökræði fordómalaust um þetta viðfangsefni. Að gera það að trúaratriði pólitískrar rétthugsunar gagnast hins vegar engum.“

Annars heyrði ég ekki betur en að Gore þakkaði meðal annars Íslendingum fyrir tvennt á Bessastöðum í gær: Fyrir að virkja vindorku og fyrir að binda koltvísýring í jarðlög.

Er öruggt að hann viti í hvaða landi hann er staddur?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki