fbpx
Miðvikudagur 08.maí 2024
Eyjan

Með rökum og sanngirni

Egill Helgason
Laugardaginn 3. janúar 2009 13:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyjunni hefur borist þetta bréf. Það er frá manni sem þekkir vel til viðskiptalífsins á Íslandi eins og sést á bréfinu. Hann vill ekki láta nafns síns getið, en bréfið er málefnalegt og á fullt erindi til lesenda.

— — —

Kæri Jón Ásgeir,

Grein þín „Setti ég Ísland á hausinn“ sem var birt í Morgunblaðinu um daginn hefur vakið verðskuldaða athygli. Þú segist tilbúinn að ræða málin með rökum og sanngirni og segist alltaf hafa farið eftir leikreglum í viðskiptum þínum.

Hafandi fylgst með viðskiptaferli þínum undanfarin ár og að mörgu leyti dáðst að dugnaði og drifkrafti þínum verð ég að viðurkenna að margar spurningar hafa vaknað hjá mér varðandi marga gerninga sem gerðir hafa verið í nafni Baugs og félaga tengdum Baugi.

Ég sendi því hér nokkrar spurningar þar sem þú segist jú tilbúinn að ræða þinn viðskiptaferil á rökrænan og sanngjarnan máta.

1.

Þú skrifar í grein þinni að ebidta hagnaður þeirra fyrirtækja sem Baugur er kjölfestufjárfestir í sé um 60 milljarðar króna.

Hversu mikill hluti af þessum 60 milljörðum rennur til Baugs þar sem Baugur er einungis einn hluthafi af mörgum í þessum fyrirtækjum ?

2.

Þú skrifar í grein þinni að skuldir Baugs við íslenskar lánastofnanir séu um 160.000.000.000 krónur.

Í viðtali við Financial Times 3. október 2008 segir þú m.a. :

Baugur’s Jón Ásgeir Jóhannesson, chairman and founder of the investment company that owns much of the British high street, has told his fellow citizens that the company is sound because its assets – and much of its debt – are based outside Iceland.

M.ö.o. stærsti hluta skulda Baugs er við erlendar lánastofnanir en ekki íslenskar.

Gefum okkur nú að skuldirnar erlendis séu einungis jafn miklar og þær eru á Íslandi, þ.e. 160 milljarðar sem gefa heildarskuldir Baugs um 320 milljarða króna.

Hversu miklar afborganir og vaxtagreiðslur þarf Baugur eiginlega að greiða árlega af a.m.k. 320 milljarða skuldum ?

Nú er ebitda skilgreint sem “earnings BEFORE interest, tax…….” þ.e. FYRIR vexti og skatta og því langar mig að spyrja þig hversu mikið stendur eftir af hlutdeild Baugs í þessum 60 milljarða ebidta hagnaði eftir afborganir af lánum, vaxtagreiðslum og sköttum ?

3.

Í fréttatilkynningu dagsettri 20. júlí er Jim Schafer, stjórnandi Bill Dollar Stores sem Baugur átti stóran hlut í, sakaður um trúnaðarbrot og að misnota aðstöðu sína en Baugur taldi hann hafa átt viðskipti við fyrirtækið og hagnast á því.

Orðrétt stendur í fréttatilkynningu Baugs:

,,Stjórn Bonus Stores þykir í hæsta máta óeðlilegt að framkvæmdastjóri hagnist á viðskiptum við eigið fyrirtæki,“ og undirritað af þáverandi aðstoðarforstjóra Baugs, Tryggva Jónssyni.

Hversu mikið hagnaðist þú persónulega/Gaumur eignarhaldsfélag þitt á sölunni á 10-11 verslunarkeðjunni sem var keypt í gegnum leynifélagið Fjárfar ehf. og svo selt 6 mánuðum síðar til almenningshlutafélagsins Baugs hf. fyrir mörg hundruð milljóna hærra verð ?

Framkvæmdastjóri Fjárfars ehf., lögmaðurinn Helgi Jóhannesson, bar fyrir dómi að þú hafir verið eigandi og stjórnandi þessa leynifélags, Fjárfars ehf. En jafnframt kom fyrir dómi að systir þín, Kristín hafi ráðið hann til starfans.

Hversu mikið hagnaðist þú persónulega eða Gaumur ehf., eignarhaldsfélag þitt á kaupum á fasteignum 10-11 sem voru svo seldar til almenningshlutafélagsins Baugs stuttu síðar fyrir mörg hundruð milljóna króna hærra verð ?

Á síðu Jóns Geralds Sullenberger www.baugsmalid.is má lesa yfirheyrslur yfir þér varðandi þessi atriði og ég tók sérstaklega eftir svari þínu hjá lögreglu varðandi þessi atriði en þar svarar þú orðrétt:

Jón Ásgeir segir engan vafa leika á að Gaumur ehf. hafi hagnast á þessum viðskiptum enda komi það fram í reikningum félagsins. Jón Ásgeir segir að alveg fráleitt sé að halda því fram að eitthvað refsivert sé við það„.

Telur þú ekkert athugavert við að láta almenningshlutafélagið Baug hf. sem var í eigu þúsunda Íslendinga lána Fjárfar ehf. hundruðir milljóna til að kaupa 10-11 verslunarkeðjuna ÁN heimildar stjórnar Baugs og án þeirra vitundar og selja svo til almenningshlutafélags sem þú stýrir með hundraða milljóna hagnaði sem rennur til einkahlutafélags Gaums ehf.

Sem er í eigu þíns og fjölskyldu þinnar ?

Hver var hinn meinti hagnaður Jim Schafer sem var rekinn samanborið við hagnað þinn á þessu 10-11 ævintýri?

4.

Þú skrifar að þú hafir eignast Fréttablaðið sumarið 2003.  Gunnar Smári Egilsson fékk “ónafngreinda” fjárfesta til að kaupa þrotabú Fréttablaðsins árið 2002 en þá var Baugur enn almenningshlutafélag.

Sumarið 2003 leystir þú Baug til þín og eftir að það komst í einkaeigu þína viðurkenndir þú eignaraðild þína að Fréttablaðinu.

Neitar þú að hafa verið þessi “leynifjárfestir” sem fjármagnaðir kaup Gunnar Smára Egilssonar á Fréttablaðinu 2002 ?

5.

Þú minnist aðeins á Baugsmálið en einn af mörgum ákæruliðunum voru falskir reikningar frá SMS keðjunni í Færeyjum en líkt og Sullenberger sendi hún falsaða reikninga til Baugs að kröfu ykkar Tryggva skv.f ramburði forsvarsmanni SMS keðjunnar, Niels Mortensen.

Hvernig skýrir þú þennan framburð Niels Mortensen, stjórnanda SMS keðjunnar í Færeyjum:

„Niels segir Tryggva hafa óskað eftir því að Niels gæfi lögreglu ranga skýringu á tilurð kreditreikningsins ef lögregla kæmi til með að spyrja hann út í þennan kreditreikning. Þannig hafi Tryggvi komið upp með þær tilhæfulausu skýringar að þessi kreditreikningur tengdist sameiginlegu innkaupunum á kaffi frá KRAFT. Niels kveðst hafa gefið honum vilyrði fyrir því að gefa lögreglu þær skýringar.

Hann kveðst því í upphafi þessara skýrslutöku hafa farið að óskum Tryggva og ætlað að skýra ranglega frá tilurð kreditreikningsins. Niels kveðst hinsvegar hafa áttað sig á því við yfirheyrsluna að sú saga gekk hreinlega ekki upp og talið best að skýra satt og rétt frá.“

6.

Financial Times sá ástæðu til að birta þennan tölvupóst sem fannst í tölvum ykkar Baugsmanna í sumar í grein um Baugsmálið en þessi póstur var sendur 24.janúar 2001 frá þér til Tryggva Jónssonar og systur þinnar, Kristínar, framkvæmdastjóra Gaums ehf.

Pósturinn ber heitið „With a little help from friends“ og fannst í tölvu Tryggva Jónssonar við handtöku hans:

„Sæll. Ljóst að við verðum að fá hjálp frá Gaum til að koma uppgjöri í rétt horf. 45 milljóna reikningur verður sendur á Gaum.
-10 milljónir ferðakostnaður
-25 milljónir tölvuþjónusta
-10 milljónir óskilgreindur kostnaður
Gaumur færir þetta á eignalykil 25 mills rest gjaldfært.

Gaumur greiðir þetta þegar Baugur kaupir bréf af Gaumi í Arcadia, einnig gerir þá Gaumur upp viðskiptareikning skuldabréf hjá Bónus og önnur mál.

…..ég veit að þetta kann að fara í pirrurnar á sumum en ég tel nauðsynlegt að verja þá hagsmuni að afkoma Baugs sé í lagi, sérstaklega eftir síðasta útboð. Einnig þarf trú markaðarins að vera góð þegar við förum í Arcadia málið. Annars allt gott. Jón Ásgeir.“

Hvað áttu við með orðunum “Ljóst að við verðum að fá hjálp frá Gaum til að koma uppgjöri rétt horf…” ?

Hvað áttu við með orðunum “ég veit að þetta kann að fara í pirrurnar á sumum en ég tel nauðsynlegt að verja þá hagsmuni að afkoma Baugs sé í lagi…..”

Var verið að fegra afkomutölur almenningshlutafélagsins Baugs hf. fyrir Kauphöllina eða er maður að misskilja þetta orðalag ?

7.

Til að kaupa hlut í Arcadia í Bretlandi stofnaðir þú ásamt Íslandsbanka, Gildingu ehf. og KB banka félagið “Arcadia Holding”.  Það kom fram í Baugsmálinu að þú gerðir samning við hluthafa Arcadia Holding þess efnis að þú mættir kaupa þá út seinna meira með hlutabréfum í Baugi og gaf stjórn Baugs hf. grænt ljós á þann gerning.

Það hurfu hinsvegar  einnig hundruðir milljóna króna í reiðufé úr sjóðum almenningshlutafélagsins Baugs hf. og var skráð í bókhald Baugs sem “ráðgjafagreiðslur og þóknanir” ýmiss konar.

Það kom fram fyrir dómi að stjórn almenningshlutafélagsins Baugs heimilaði aldrei neinar slíkar peningagreiðslur og enginn af hluthöfum Arcadia Holding kannast við að hafa fengið slíkar peningagreiðslur.

Við lögreglurannsókn á bókhaldi almenningshlutafélagsins Baugs hf. stóð m.a. að 95 milljón krónur hafi verið greiddar til KB Banka fyrir “ráðgjöf/þóknanir”.

Í framburði sínum hjá lögreglu fullyrðir Hreiðar Már að þessi bókhaldsfærsla Baugs sé röng og hann segir m.a.:

Vissulega hafi KB Banki fengið 95 milljóna greiðslu frá Baug en skýr greiðslufyrirmæli voru frá greiðandanum að millifæra ætti þessar 95 milljónir áfram á Gaum Holding í Lúxemborg og þaðan hafi peningarnir runnið til FBA Holding vegna Orca hópsins sem var bandalag ýmissa manna í viðskiptalífinu, þ.á.m. Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem stóð að yfirtökutilraunum í Íslandsbanka meðal annars.

Er Gaumur holding ekki félag í persónulegri eigu þinni og staðsett í Lúxemborg ?

Hvernig skýrir þú þennan framburð Hreiðar Más og hvert fóru þessar hundruð milljóna króna sem voru teknar án heimildar stjórnar almenningshlutafélagsins Baugs ?

8.

Hvernig skýrir þú aðkomu þíns helsta viðskiptafélaga, Pálma Haraldssonar í Fons, að leynifélaginu Stím ehf. en Morgunblaðið birti frétt um leynifélögin FS37 og FS38 ehf. sem Pálmi var eigandi að og útskýrir hvernig hann setur 2.500.000.000 krónur inn í þessi félög sem svo skipta um nafn og breytast í Stím ehf.

Hvernig skýrir þú 20.000.000.000 króna lán sem Stím ehf. fékk án trygginga eða veða  í Glitni til að kaupa einungis í félögum sem tengjast þér, þ.e. FL Group og Glitni banka þegar gengi þeirra fór hríðlækkandi í Kauphöllinni

Hvernig skýrir þú 2.500.000.000 króna fjárfestingu Tryggingamiðstöðarinnar – án heimildar eða vitundar stjórnar TM – til hlutabréfakaupa í FL Group í janúar 2008 þegar FL Group hafði þá hrapað í Kauphöllinni ásamt því að vera með mesta tap íslandssögunnar á bakinu uppá um 70.000.000.000 krónur ?

Voru þessar tugmilljarða fjárfestingar í félögum þér tengdum sem voru í frjálsu falli í Kauphöllinni gerðar algerlega án þinnar vitundar ?

Og meira varðandi Pálma í Fons:

Hvernig útskýrir þú þessa tugmilljarða viðskiptahringekju með flugfélagið Sterling þar sem Pálmi Haraldsson hagnast um þúsundir miljóna króna á 6 mánuðum eins og margfrægt myndband hefur sýnt svo rækilega á youtube?

Telur þú Sterling hringekjuna eðlileg viðskipti þar sem sömu mennirnir kaupa og selja flugfélagið í 5 ólíkum viðskiptum fyrir tugi milljarða króna en einu raunverulegu peningarnir sem skipta um hendur eru fjármunir hluthafa FL group ?

9.

Um daginn steig fram fyrrum endurskoðandi KPMG, Aðalsteinn Hákonarsson, sem fékk réttarstöðu grunaðs manns í Baugsmálinu vegna falsaðra gagna sem hann fékk frá ykkur Tryggva Jónssyni skv.framburði hans vegna leynifélagsins Fjárfars ehf., og lýsti stórfelldum blekkingum með bókhald og afkomutölur fyrirtækja í Kauphöll Íslands.

Lýsti hann m.a. því hvernig sumir einstaklingar hefðu stundað þann leik að kaupa fyrirtæki með “skuldsettri yfirtöku” og láta svo lánin sem voru tekin til að kaupa fyrirtækin, þ.e. skuldirnar, renna inn í félagið aftur og svo selt til almennra fjárfesta/lífeyrissjóða á margfalt hærra gengi en fyrirtækið hafði verið keypt áður og þá ÁN þessara skulda !

Og til að leyna þeim áhrifum sem þessi gerningur – þ.e. að flytja skuldirnar yfir í félagið eftir að hafa keypt það – var brugðið á það ráð að uppfæra viðskiptavildina í bókhaldi félagsins sem gæfi þá sterka stöðu vegna mikils eigið fés sem var hinsvegar að mestu bara “ósýnileg og óáþreifanleg” viðskiptavild.

Eða eins og Aðalsteinn segir:

Það má orða það svo að viðskiptavildin sé vísbending um þá fjárhæð skulda sem flutt hefur verið inn í félögin umfram raunverðmæti eigna.

Jafnframt birtir hann lista yfir félögin í Kauphöllinni og þar vekur athygli staða fyrirtækja Baugs:

Viðskiptavild Teymis árið 2006 er 17.500.000.000 krónur en eigið fé einungis rúmir 4 milljarðar.  Viðskiptavildin er því rúmlega 420% HÆRRI en eigið fé fyrirtækisins !

Viðskiptavilid Teymis árið 2007 er 19.600.000.000 krónur en eigið fé er einungis 8.2 milljarðar og því viðskiptavildin 240% HÆRRI en eigið fé fyrirtækisins !¨

Sama gildir um 365/Dagsbrún. Þar er viðskiptavildin vel yfir 100% HÆRRI en eigið fé fyrirtækisins.

Hvernig skýrir þú þetta ?

Er þetta ekki meginástæðan fyrir því t.d. að 365 var komið á hausinn um daginn með um 12 milljarða skuldir og þú keyptir þá alla yfir í nýtt félag , þ.e. búið var að skuldsetja félögin strax á fyrsta degi upp í topp og almennir hluthafar og lífeyrissjóðir látnir greiða fyrir lánin sem Baugur tók upphaflega til að kaupa fyrirtækin þar sem skuldirnar voru fluttar inn “bakdyramegin” yfir í hið nýja félag sem Baugur setti svo á almennan hlutabréfamarkað með uppskrúfaðri viðskiptavild ?

Hversu miklar skuldir voru fluttar í 365, Teymi, Dagsbrún þegar þessi félög voru sett á markað ?

10.

Sem einn stærsti hluthafi og jafnframt stjórnarformaður FL Group frá og með miðju ári 2007, hvernig skýrir þú 6.100.000.000 króna rekstrarkostnað almenningshlutafélagsins FL Group árið 2007 ?

Af hverju hefur ekki verið hægt að fá nákvæma sundurliðun á þessum kostnaði og þá meina ég ítarlega sundurliðun í stað frasa eins og “eftirlaunaskuldbingar, mikill vöxtur á félaginu o.sv.frv.”.

Þú sagðir í viðtali 2007 að þessi rekstrarkostnaður FL Group kæmi þér verulega á óvart.  Sem stjórnarformaður félagsins – hvernig getur þú ekki vitað um rúmlega 6,000 milljón króna rekstrarkostnað?

11.

Hvernig skýrir þú húsleit skattyfirvalda í höfuðstöðvum FL Group?  Er það partur af samsæri yfirvalda gegn ykkur að þínu mati?  Er það rétt sem Morgunblaðið hélt fram í frétt sinni um málið að stjórnendur FL Group hafi vitað um rannsókn skattyfirvalda mánuðum saman áður en húsleitin hafi verið gerð og þau m.a. krafist svara á ýmsum atriðum í rekstri félagsins áður en húsleitin var gerð?

Ef svo er, af hverju var gerð húsleit?  Voru svör ykkar ekki fullnægjandi?

12.

Þú skrifar að samkeppnisyfirvöld hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að Bónus megi ekki bjóða lægsta verðið á matvörumarkaðnum og sektað fyrirtækið fyrir að vera með of lágt vöruverð.

Úrskurður samkeppnisyfirvalda laut að undirverðlagningu og hvernig fjársterk félög með markaðsráðandi stöðu geti bolað keppinautum af markaði með að bjóða vörur undir kostnaðarverði þar til keppinautar gefast upp á markaðnum.

Getur verið að forsvarsmenn Baugs hafi eitthvað misskilið úrskurð samkeppnisyfirvalda ?

13.

Í viðtali í Silfri Egils fyrir nokkru sagðist þú ekki kannast við skattaparadísina “Tortola” í Bresku Jómfrúareyjunum en félag þitt Gaumur Holding er stofnað í gegnum skúffufélög þar eins og Kompás þátturinn sýndi um daginn.

Systir þín hinsvegar, Kristín, sem jafnframt er framkvæmdarstjóri Gaums á Íslandi, sagðist kannast við eyjuna Tortola og að einkahlutafélag þitt, Gaumur Holding, hafi verið stofnað þar.

Neitar þú enn að kannast við eyjuna “Tortola” í dag?  Ef ekki, hver er tilgangurinn með svona flókinni uppsetningu á félaginu en í dag er félagið Gaumur Holding starfrækt frá Lúxemborg eins og frægt er.

14.

Þú viðurkennir að hafa hagnast vel undanfarið en nú sé allur hagnaðurinn farinn.  Fyrir nokkru birti New York Times frétt um eina dýrustu íbúð á Manhattan eyju sem var keypt af þér á um 3.000.000.000 krónur og einnig hafa birst myndir af einkaþotu þinni ásamt einni stærstu snekkju Evrópu á íslenskum netmiðlum.

Hafa þessar eignir verið seldar eða er þetta allt í þinni eigu ennþá ?

15.

Indriði Þorláksson fyrrum ríkisskattstjóri fullyrðir að um 80.000.000.000 krónur hafi verið greiddar í arðgreiðslur til erlendra eignarhaldsfélaga frá íslenskum fyrirtækjum undanfarin ár.

Þar sem þú segist greiða alla skatta á Íslandi – hversu miklar arðgreiðslur hafa verið greiddar til þín frá íslenskum fyrirtækjum í erlend eignarhaldsfélög í þinni eigu ?

16.

Þú minnist á skattaákærurnar sem birtar voru í desember sl. og segir það enn einn partinn af Baugsmálinu.

Er skattamálið ekki algerlega nýtt mál þar sem aldrei hefur verið kært fyrir skattalagabrot í Baugsmálinu?

Og varðandi tafirnar á hinu svokallaða Baugsmáli, hversu stóran hluti tafanna má rekja til kæra frá lögmönnum Baugs vegna vanhæfis ríkislögreglustjóra, saksóknara, ráðherra, sem og hinna ýmsu kærufresta, andmæla og frávísunartillaga  sem skipta tugum ?

Látum þetta nægja í bili en þú myndir eyða talsverðri tortryggni ef þú gætir svarað þessu stuttlega því eins og þú segir sjálfur er mikil reiði og tortryggni út í hina svokölluðu útrásarvíkinga og þú átt hrós skilið fyrir að stíga fram og vilja rökræða þín mál með rökum og sanngirni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Halla heldur forystunni en Katrín sækir í sig veðrið

Halla heldur forystunni en Katrín sækir í sig veðrið
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þessu svöruðu frambjóðendurnir þegar þeir voru spurðir út í kostnað við framboð þeirra – Gróflega áætlaðar krónutölur eða óræð ekki-svör

Þessu svöruðu frambjóðendurnir þegar þeir voru spurðir út í kostnað við framboð þeirra – Gróflega áætlaðar krónutölur eða óræð ekki-svör
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Auðlindir í auðmannaþágu

Sigmundur Ernir skrifar: Auðlindir í auðmannaþágu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Ólafur Ragnar tekur sér Eirík Fjalar til fyrirmyndar og telur sig vera höfund þjóðarsáttarinnar

Orðið á götunni: Ólafur Ragnar tekur sér Eirík Fjalar til fyrirmyndar og telur sig vera höfund þjóðarsáttarinnar
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir – fólkið velur forsetann, ekki fjölmiðlar eða skoðanakannanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir – fólkið velur forsetann, ekki fjölmiðlar eða skoðanakannanir
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Atli Þór ráðinn til Pírata

Atli Þór ráðinn til Pírata
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún greinir frá breytingum í reglum um framboðslista flokksins – Möguleiki á prófkjöri um efsta sæti og uppstillingu á þau næstu

Kristrún greinir frá breytingum í reglum um framboðslista flokksins – Möguleiki á prófkjöri um efsta sæti og uppstillingu á þau næstu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Halla Tómasdóttir í hljóði og mynd