fbpx
Sunnudagur 19.maí 2024
Eyjan

Evran, munum staðreyndirnar

Egill Helgason
Mánudaginn 12. janúar 2009 10:04

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Margeirsson, mastersnemi í hagfræði við háskólann í Exeter á Englandi, sendi mér þessa grein.

— — —
Umræðan um Evrópusambandið og upptöku evru er á villigötum; hún snýst í enn meiri mæli en áður um tilfinningar og “mér finnst…” rök í stað staðreynda. Þegar slíkt gerist er nauðsynlegt að setjast niður og velta því í rólegheitum fyrir sér hvort íslenska hagkerfinu og landsmönnum sé betur borgið innan Evrópusambandsins með evru sem lögeyri eður ei. Spurningin um hvort eigi að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru er einkum pólitísk, lögfræðileg og hagfræðileg. Upprifjun á hagfræðilegum áhrifum er afar nauðsynleg í núverandi ástandi. Öllum pólitískum og lögfræðilegum vafaefnum á borð við hvort, hvenær, hvernig og á hvaða forsendum Ísland fengi inngöngu í sambandið með upptöku evru í kjölfarið er sleppt í eftirfarandi grein. Þá er líka horft framhjá því hvað yrði um sjávarútvegsauðlindir landsins. Eftirfarandi orð miðast við hagfræðilegar staðreyndir af fremsta megni og er stjórnmálamönnum og lögfræðingum eftir látið að fjalla um aðrar hliðar evruupptöku og hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu.

Þörfin var ótvíræð

Meginkostur evrunnar umfram krónuna er seljanleiki (e. liquidity) hennar. Það þýðir ekki að hún sé stöðugri gagnvart öðrum myntum til langs tíma litið heldur að einstök viðskipti með evruna eru ólíklegri til að hafa áhrif á gengi hennar. Með öðrum orðum, evran er “stærri” gjaldmiðill en íslenska krónan sem auðveldara er að eiga viðskipti með án þess að þurfa að gefa afslátt vegna þess hve “smá” hún er líkt og núverandi lögeyrir Íslands. Þessi aukni seljanleiki hefur tvo afleidda kosti sem eru mikilvægir; lægra raunvaxtastig og minni viðskiptakostnað í milliríkjaviðskiptum.

Það var seljanleiki evrunnar sem gerði hana svo heillandi, samanborið við íslensku krónuna, þegar bankakerfið var á hvað mestri siglingu. Það var lífsspursmál fyrir bankakerfið að hafa aðgang að seðlabanka sem hefði nánast takmarkalausa möguleika á að veita þrautalán í seljanlegri mynt svo lengi sem veðin að baki þeim væru góð og gild. Það gat Seðlabanki Íslands ekki þá, það getur hann ekki nú og mun aldrei geta með krónuna sem lögeyri. Þá hefði verið mun minna áfall fyrir ríkissjóð að endurreisa bankana hefði lögeyrir hagkerfisins verið höndlaður á alþjóðlegum mörkuðum. Það var lausafjárskortur bankakerfisins sem felldi það, ekki eiginleg eiginfjárvandamál.

Nú er staðan gjörbreytt – bankakerfið er hjóm eitt í samanburði við fyrra sjálf þess og langtímaþörf nýju bankanna fyrir erlendan gjaldeyri brot af eftirspurn þeirra gömlu. Veigamestu rökin fyrir evruupptöku eru þannig nánast að engu orðin.

Óviss ábati
Hvað varðar hina afleiddu kosti aukins seljanleika evrunnar (minni viðskiptakostnað og lægri raunvexti) þá er óvíst hvort þeir séu jafn veigamiklir og margir vilja halda fram.

Það er vissulega rétt að viðskiptakostnaður myndi minnka og milliríkjaviðskipti ættu að sama skapi að aukast. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að langtímavöxtur milliríkjaviðskipta beinlínis vegna upptöku evrunnar er ekki jafn mikill og vonir hafa staðið til. Rannsóknir byggðar á gögnum frá Evrulöndunum benda til að aukning milliríkjaviðskipta sé einkum milli evruríkjanna sjálfra og er aukningin mismunandi eftir löndum eða um 5-20% (Nitsch og Pisu, 2008). Þá skal varast að eigna evrunni allan heiðurinn af auknum viðskiptum þar sem viðskiptahömlur og flæði fjármagns varð um leið auðveldara þegar lagaumhverfi landanna varð samræmt við inngöngu í ESB. Berger og Nitsch (2005) fundu t.a.m. að þegar búið var að leiðrétta fyrir þessum þáttum, sem eru minni viðskiptahömlur og aukið flæði fjármagns, voru jákvæð áhrif sameiginlegs gjaldmiðils hverfandi. Þar sem Ísland hefur þegar sæmræmt sinn lagaramma við um tvo þriðju þess ramma sem gildir í Evrópusambandinu er alls óvíst hvort að evran verði jafn áhrifamikil hvað varðar viðskipti við útlönd og vonast er til. Þá verður að hafa í huga að um fjórðungur af útflutningi landsins er vegna áliðnaðar en aðeins lítið brot af þeim virðisauka sem myndast í greininni verður eftir meðal þjóðarinnar vegna erlends eignarhalds álfyrirtækja. Þá er alls óvíst að sá hluti útflutnings sem kemur til vegna álútflutnings myndi aukast beinlínis vegna evruupptöku. Niðurstaðan er sú að vafalaust myndu utanríkisviðskipti aukast við inngöngu í ESB og evruupptöku en ávinningurinn af þeirri aukningu er mjög á reiki og má draga verulega í efa að hann sé stórvægilegur. Ekki má gleyma því að engin þörf er á að vera í Evrópusambandinu til að auka viðskipti Íslands við aðildarríkin, það eina sem þarf er fríverslunarsamningur.

Lægra nafn- og raunvaxtastig hefði vissulega jákvæð áhrif á skuldahlið efnahagsreiknings heimila jafnt sem fyrirtækja. En hafa verður í huga að eignahlið heimila mun líka skreppa saman, einkum vegna lægri raunávöxtunar lífeyrissjóða og vænts gjaldþrots Íbúðalánasjóðs. Íslensku lífeyrissjóðirnir miða almennt við 3,5% raunávöxtun til langs tíma þegar lífeyrisgreiðslur þeirra eru reiknaðar út. Munur á raunvöxtum í krónum og myntum helstu viðskiptalanda Íslands hefur í sögulegu ljósi verið á bilinu 1,5-2,5% til langs tíma. Má reikna með að raunvextir hérlendis nálgist verulega það sem gengur og gerist á evrusvæðinu sé evran tekin upp. Og vegna lægra raunvaxtastigs myndu lífeyrissjóðirnir eiga erfiðara með að halda núverandi áætlunum um útgreiðslu lífeyris. Hvað varðar Íbúðalánasjóð er full ástæða til að búast við gjaldþroti sjóðsins verði evran tekin upp. Skuldabréf Íbúðalánasjóðs sem hann gefur út í þeim tilgangi að afla fjármagns til útlána til einstaklinga eru ekki uppgreiðanleg. Það eru flest lán hans til einstaklinga hins vegar. Væri evran tekin upp myndi hver einasti lántaki Íbúðalánsjóðs, sem það gæti, greiða upp lán sín með nýjum lánum í evru vegna lægra raunvaxtastigs. Íbúðalánasjóður getur ekki gert slíkt hið sama gagnvart skuldunautum sínum svo hann sæti eftir með hávaxtaskuldir en lávaxtaeignir. Ríkissjóður ber ábyrgð á Íbúðalánasjóði svo að innspýting eigin fjár frá ríkinu yrði að öllum líkindum nauðsynleg.

Brotthvarf verðbólgu er þjóðsaga

Það skal vera alveg kristalljóst að verðbólga hefur lítið með upptöku evru að gera. Vissulega myndu áhrif gengis gjaldmiðilsins minnka. Eins og staðan er í dag er um 40% af vörugrunninum sem notaður er til mælinga á verðbólgu erlendar vörur og því háð gengi krónunnar. Væri evran tekin upp myndu þau gjaldeyrisáhrif sem rekja má til innflutnings frá Evrulöndum, Danmörku og Eystrasaltslöndum hverfa. Ríflega 45% af innflutningi eru nú frá þessum löndum og er trúlegt að vægi þeirra myndi aukast að vissu marki eftir upptöku evru. Í heildina myndu áhrif gengis, eftir upptöku evru, því hafa áhrif á um 20-25% af vörugrunninum sem notaður er til mælinga verðlags miðað við 40% nú. Þetta er þó ekki trygging fyrir því að verðbólga myndi minnka til langs tíma. Nægir að benda á Lettland í þeim efnum en eftir að lettneska latið var bundið við evru árið 2004, sem nánast jafngildir upptöku evrunnar sem lögeyris, jókst verðbólga. Mun formleg upptaka evrunnar sem lögeyris Lettlands líklega frestast enn frekar einmitt vegna þessa sökum Maastrict skilyrðanna. Ástæðan fyrir aukinni verðbólgu var einkum sú að nafnlaun snarhækkuðu, framleiðslukostnaður hækkaði og verðbólguspírall myndaðist. Þar sem peningamálastjórn var, og er, takmörkuð vegna bindingarinnar við evru gat seðlabanki Lettlands lítið gert. Seðlabanki Evrópu tók lítið sem ekkert tillit til hins staðbundna ástands sem er þekkt vandamál í sumum Evrulöndum. Sagan er sú sama frá öðrum Eystrasaltslöndum. Að evruupptaka ein og sér muni endanlega kveða niður verðbólgudrauginn er ekki rétt.

Verðbólgu yrði hins vegar þrýst niður á við frekar en ekki vegna brotthvarfs verðtryggingarinnar. Það er kostur sem sem margir hafa staðfastlega horft til. Vegna verðtryggingar er hagfræðilegur og pólitískur kostnaður við verðbólgu ekki jafn hár og ella. Það er hins vegar óljóst hvort heimili og fyrirtæki myndu hagnast um eitthvað sem munar á brotthvarfi verðtryggingarinnar í sjálfu sér. Hér verður að gera greinarmun á lækkun raunvaxta og brotthvarfi verðtryggingar. Þar sem raunvaxtakrafa lánakerfisins er til langs tíma tiltölulega stöðug myndu nafnvextir útlána sveiflast í takt við verðbólgu. Öfugt við það sem nú er myndi lánakerfið, þ.e. lánadrottnar, bera verðbólguáhættuna en ekki lántakinn. Af þeim sökum yrði raunvöxtum aftur ýtt upp að einhverju leyti. Hversu mikið væri einkum háð samkeppni innan íslenska lánakerfisins og því hve sveiflukennd verðbólga væri. Þannig er mögulegt að raunvaxtamunur verði áfram milli íslenska hagkerfisins og annarra Evrulanda, þrátt fyrir sömu mynt, þótt munurinn myndi án efa minnka til muna. Þá myndu heimilin, vegna tregbreytanleika launa, vera í aukinni hættu á lausafjár- og eiginfjárskorti þegar breytanlegir nafnvextir hækka og afborganir lána um leið. Rétt er að minnast þess að afborganir lána hækka hraðar með nafnvaxtabreytingum sem elta verðbólgu heldur en þegar verðtrygging er til staðar. En vilji Íslendingar eftir sem áður losna við verðtryggingu lána er einfaldlega hægt að breyta íslenskum lögum til þess, án afskipta ESB.

Atvinnuleysi myndi aukast

Sjálfstæð peningamálastjórn hefur þann kost fyrir raunhagkerfið að það þarf síður að taka á sig nauðsynlega leiðréttingu þegar hægir á í efnahagslífinu eftir þenslu og/eða verðbólgutímabil sem er ekki í takt við helstu viðskiptalönd Íslands. Aðstæður af því tagi, þ.e. ólík hagsveifla hins íslenska hagkerfis og hagkerfa viðskiptalanda, hafa hingað til verið raunin frekar en ekki og fátt sem segir að svo verði ekki áfram. Fari raungengi íslenska hagkerfisins stórkostlega fram úr því sem gengur og gerist í öðrum löndum, s.s. vegna hraðari verðlags- eða launahækkana hérlendis í samanburði við erlendis, þarf að leiðrétta það á einn eða annan máta ella mun ósjálfbær viðskiptahalli myndast. Sé sami lögeyrir í löndunum er aðeins ein leið til þess; í gegnum vinnumarkaðinn með minni framleiðslu og auknu atvinnuleysi í von um lægri verðbólguþrýsting og/eða lægri kaupmætti launa og minni innflutningi. Allt miðast við að lækka raungengið og leiðrétta viðskiptahallann. Sé hins vegar sjálfstæð mynt til staðar er hægt að leiðrétta raungengið og viðskiptahallann með veikingu nafngengis sem leiðir til virðisaukningar útflutnings og leiðréttingar viðskiptahallans. Þannig er hægt að hlífa vinnumarkaðinum við áfallinu að vissu marki.

Svo lengi lærir sem lifir
Það skal tekið fram að undirritaður var talsmaður upptöku evru fyrir örfáum mánuðum. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og margur bankinn farið á hausinn vegna lausafjárskorts. Spurningunni um upptöku evru ætti ekki að vera svarað af tilfinningalegri heift heldur með beinhörðum staðreyndum. Jafn kaldhæðnislega og það hljómar mun krónan, um leið og hún kemst á almennilegt flot, vera sá þáttur sem mun hafa hvað jákvæðust áhrif á að uppgangur íslenska hagkerfisins geti hafist á ný. Möguleikinn á sjálfstæðri peningamálastjórn í þeim aðstæðum sem nú ríkja er ómetanlegur. Á því hafa Lettar og margar aðrar þjóðir sem eru nú með evru fengið að kenna svo um munar. Ljóst er að með þeirri skuldsetningu sem ríkið mun þurfa að taka á sig við björgun fjármálakerfisins munu möguleikar ríkissjóðs til að hafa jákvæð áhrif á hagkerfið með auknum opinberum framkvæmdum dragast mjög saman. Því mun peningamálastjórn að öllum líkindum leika veigamikið hlutverk á næstunni. Til þess þarf þó að fá fagmenn sem menntaðir eru á sviði hagfræði. Það er ekki pólitísk spurning hvort endurnýja þurfi forystu Seðlabankans. Sú spurning er af hagfræðilegum meiði og snýst um traust sjálfstæðrar peningamálastjórnar – ætli menn sér að reka slíka stefnu áfram.

Ólafur Margeirsson
Höfundur er hagfræðingur

Heimildir:

Berger, Helge og Volker Nitsch. 2005. Zooming Out: The Trade Effect of the Euro in Historical Perspective. Vefsíða:
http://www.cesifo-group.de/DocCIDL/cesifo1_wp1435.pdf

Nitsch, Volker og Mauro Piso. 2008. The Euro and Trade: New Evidence. Vefsíða: http://www.voxeu.org/index.php?q=node/1400

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt