fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Kosningar fólksins eða flokkanna

Egill Helgason
Miðvikudaginn 28. janúar 2009 09:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi pistill er eftir Friðrik Erlingsson.

— — —

Í bókinni “The Irony of Democracy” (Belmont, 1975) fullyrða Thomas R. Dye og L. Harmon Ziegler eftirfarandi:

“Elites, not masses, govern America. In an industrial, scientific, and nuclear age, life in a democracy, just as in a totaliterian society, is shaped by a handful of men. In spite of differences in their approach to the study of power in America, scholars – political scientists and sociologists alike – agree that the key political, economic, and social decisions are made by tiny minorities.”

Við Íslendingar þekkjum þessar litlu valdaklíkur. Hér heita þær stjórnmálaflokkar, eða réttara sagt: innsta kjarni flokkanna, hin ráðandi “elíta”. Sú, eða þær elítur, hafa teygt anga sína víða, komið sér og sínum fyrir og fest sér þau völd tryggilega sem þau hafa einu sinni hreppt. Og sleppa þeim aldrei. Þetta eru í sjálfu sér engin ný tíðindi, en um þessar mundir blasir þetta við. Völdin, sem þessar klíkur hafa tekið sér, byggja ekki síst á þeim “götum” eða “holum” sem eru í þeirri stjórnarskrá, sem samþykkt var á Þingvöllum 1944.

Síðan hefur ekki lítið breyst. Þetta eru þau 65 ár sem það tók þjóðina að þroskast úr Bjarti í Sumarhúsum í Pál Óskar Hjálmtýsson.

Ekkert er flokksklíkum ógeðfelldara en stjórnarskrá, sem er það plagg er sýnir sameiginlegan vilja þjóðarinnar m.a. um hvernig valdinu skuli dreift, á hverja það skuli skiptast og í hvaða hlutföllum. En vegna þess hve ígrunduð stjórnarskrá er flokksklíkunum mikið fótakefli, þá hafa þær sammælst um að hræra í henni sjálfar eftir hentugleikum, eða réttara sagt: talið okkur trú um að einhverjir, einhvers staðar væru að vinna við lagfæringar á stjórnarskránni. En þetta er, og hefur alltaf verið blekking. Ofan á blekkinguna bætist sú svívirðing að flokkarnir sjálfir séu að fikta í stjórnarskrá sem á að vera samþykkt þjóðarinnar einnar.

Stjórnmálaflokkar eru ekki þjóðin, svo mikið er víst. Og sannarlega er þjóðin ekki stjórnmálaflokkur.

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn, sem ævinlega hefur litið á sig sem Guð almáttugan í íslensku samfélagi, krafist kosninga 9. maí. Vikunni áður en þetta 11. boðorð Drottins var básúnað, hafði Guð reyndar sagt að kosningar væru lífshættulegar fyrir þjóðina, og þá sérstaklega ef flokkurinn hans ætti ekki að vera með. Það væri ekki bara guðlast heldur heimsendir fyrir fólkið í landinu. En Sjálfstæðismenn kunna líka flokka best að stýra hræðsluáróðri og að skjóta skelk í þær bringur, sem ætla kannski að fara að taka sjálfstæða ákvörðun – þvert á vilja Sjálfstæðisflokksins.

En fari nú svo að lýðurinn verði ginntur til að kjósa í vor – hvað á hann þá að kjósa? Vinstri-græn eða hægri-rauð eða frjáls-framsókn eða kannski sjálfstæðisgrænsóknarsamfrelsi? Með óbreyttum kosningalögum veit engin hvað kemur uppúr kössunum í raun og veru. Og til hvers var þá barið í bumbur? Til að skipta út andlitum?

Til er ævintýri um dreka sem hafði sjö höfuð og þegar eitt þeirra var höggvið af spruttu önnur sjö í stað þess eina sem fauk. Er það ásættanleg niðurstaða – eftir allt sem á undan er gengið – að skipta út flokkum? Þegar kerfið, sem flokkarnir starfa eftir – og hafa smíðað sér sjálfir – gerir þá alla í raun og veru að einum og sama flokknum: sérhagsmunaflokki stjórnmálastéttarinnar?

Nei. Alþingiskosningar í vor eru sjónarspil þessara afla sem ætla sér ekki að sleppa takinu, sama hvað sleifinni er oft slegið í pottinn. Kosningar í vor ættu alls ekki að vera alþingiskosningar, heldur kosningar til stjórnlagaþings, sem hefur tvö mál á sinni könnu: nýja stjórnarskrá og ný kosningalög.

Sú ríkisstjórn sem mynduð verður í dag (?) skal gefa þjóðinni vinnufrið og leysa einsog menn úr þeim hrikalegu málum sem varða almannaheill – ekki flokkshagsmuni – þann tíma sem stjórnlagaþing hefur til að ljúka vinnu sinni, mögulega 12 – 18 mánuði. Þar til þeirri vinnu er lokið er öll Evrópu-umræða út í hött. Það er ekki þjóðinni sæmandi að koma einsog sársvangur, vælandi útigangshundur að dyrum Evrópusambandsins.

Fulltrúar á stjórnlagaþing eru kosnir í almennum kosningum, samkvæmt lögum þar um. Frambjóðendur verða að vera okkar besta fólk, þekkt af viti, réttlæti og heiðvirðleika, og hæfileikum, reynslu og þekkingu á þeim málefnum er snerta nýja stjórnarskrá og ný kosningalög. Við verðum öll að hvetja þá einstaklinga, sem við vitum að búa yfir þessum eiginleikum, til að bjóða sig fram sem fulltrúa. Fjöldi kjörinna þingmanna gæti verið 49, 24 konur og  24 karlar. Oddamaðurinn, og forseti þingsins, yrði sá einstaklingur sem flest atkvæði fengi samtals. Stjórnlagaþingið hefur síðan umboð til að leita til allra þeirra sérfræðinga, sem það telur þörf fyrir, meðan á starfi þess stendur.

Þetta er ekki sérlega flókið.

Þegar ný stjórnarskrá og ný kosningalög liggja fyrir, og hafa fengið góða kynningu og umfjöllun, þarf að leggja hvort tveggja fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði hvort tveggja samþykkt skal þing rofið og boðað til kosninga á grundvelli nýrrar stjórnarskrár og nýrra kosningalaga.

Þá fyrst – og aðeins þá – getum við gengið til Alþingiskosninga af einhverri sannfæringu, og vonandi með nokkru stolti yfir því að hafa ekki látið íslenska óðagotið ráða för; að hafa ekki vaðið, eina ferðina enn, út í mýri í einhverju hysteríukasti yfir því að nú þurfi að redda öllu á svipstundu. Betri er krókur en kelda, segir máltæki, sem byggir á lífsreynslu kynslóðanna.

Væri það ekki sögulegt – allt að því ljóðræn fullkomnun – að þjóð, sem aldrei vildi hafa konung, nema lögin, gæfi sér tíma og næði til að skapa nýjan sáttmála þings og þjóðar, sem gæti kannski enst út þessa öld? Væri það ekki ótvíræð og gullvæg skilaboð til framtíðarinnar, að á þessum dögum – þessari ögurstundu – hafði þjóðin sjálfstæði til að ákveða það, frelsi til að hrinda því í framkvæmd og hugrekki til að fylgja því eftir og standa þannig með sjálfri sér.

Er nokkuð mikilvægara í lífi einstaklings eða þjóðar?

Takist flokksræðinu að knýja fram Alþingiskosninga-leikrit í vor, með óbreyttum kosningalögum og stjórnarskrá, þá mun ég skila mínu lýðræðislega nei-i, auðum seðli, hér eftir sem hingað til – og verða þar með lögbrjótur – því núgildandi kosningalög hafa svipt mig þeim rétti að segja nei, ella skal ég sæta sektum – ég má bara segja mis-flokkræðislegt já.

Fari svo, verð ég þó alltaf lögbrjótur með hreina samvisku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum