fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Eyjan

Hugleiðingar lögmanns

Egill Helgason
Föstudaginn 13. febrúar 2009 12:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bankarnir sjálfir, stjórnendur þeirra og stærstu eigendur réðust grímulaust að íslensku hagkerfi og þar með fólkinu í landinu – viðskiptavinum sínum – sem tekið hafði lánin í góðri trú og með ráðgjöf bankanna sjálfra að leiðarljósi.  Ábyrgðarleysið og áhættutakan sem viðgekkst í bankarekstri hér á landi er í dag augljós, enda stendur íslenskur almenningur nú í forinni upp að öxlum og ráðamenn tala í fullri alvöru um að hans sé vandinn og ætlast til að fólk beri hér skuldaklafa inní framtíðina eins og ekkert hafi í skorist.  Ég vara mína umbjóðendur við að flækja sig með þeim hætti enn frekar í netinu, enda kunna skuldarar að eiga raunhæfar mótbárur gegn bönkunum…

Segir meðal annars í eftirfarandi grein eftir Björn Þorra Viktorsson, lögmann og fasteignasala.

— — —

Sæll Egill.

Ég hef eins og fjöldi annarra setið agndofa og fylgst með því sem er að gerast hér á landi í efnahagslegu tilliti á liðnum vikum og mánuðum.  Mér datt í hug að senda þér smá stöðumat mitt sem starfandi lögmanns og fasteignasala nokkuð á annan áratug.  Ef þér finnst þessar hugleiðingar eiga erindi á vefinn þinn, þá er velkomið að þú birtir þetta þar.

Staðan úti á akrinum í dag

Fyrir okkur sem erum úti á akrinum að reyna að aðstoða fólk og fyrirtæki alla daga í því dæmalausa umhverfi sem nú ríkir í kjölfar þess að efnahagskerfið er hrunið/að hrynja, er alls ekki að sjá að saman fari hljóð og mynd hjá annars vegar ráðherrunum og lansdfeðrunum sem endalaust tala í frösum á borð við að „slá þurfi skjaldborg um heimilin…“,   „sýna þurfri skuldurum skilning“, „ koma þurfi hjólum atvinnulífsins af stað…“ og hins vegar í aðgerðum og verkferlum ríkisrekinna fyrirtækja sem lúta í dag eignarhaldi ríkisins og pólitískt skipaðri stjórn.  Það þarf að bregðast strax við með beinum raunhæfum alvöru aðgerðum, við megum engann tíma missa.  Ef við gerum það ekki, þá lognast stærstur hluti fyrirtækjanna útaf á næstu dögum og vikum, enda eru fyrirtækjarekendur búnir með allt eigið fé og lausafé, bankarnir hafa enga getu til frekari útlána og súrefnið er allt að verða uppurið.  Fyrirtæki sem verið hafa í góðum  rekstri árum og áratugum saman eru lent í vanskilum og eigendur og stjórnendur þeirra eiga engra kosta völ við að leysa úr málunum.  Þegar fyrirtækin falla, þá falla heimilin einnig, svo einfalt er nú það.  Það er gömul lumma og á alls ekki við í dag að stilla þessu upp eins og gert hefur verið að bjarga þurfi heimilunum fyrst og bíða með fyrirtækin, eins og þetta séu tveir óskyldir hlutir.  Um leið og fyrirtæki með 40 manns fer á hausinn, þá fær öryggisnet samfélagsins 40 fjölskyldur í fangið með tilheyrandi útgjöldum.  Þetta hangir nefnilega allt saman…

Það er ekki að sjá að bankarnir né fjármögnunarleigurnar hafi nein bein fyrirmæli eða valdboð fengið að ofan, enda eru þar allir gömlu verkferlarnir keyrðir eins og ekkert hafi í skorist!  Þannig er allt innheimtu- og fullnustuferli keyrt áfram af fullum þunga, þrátt fyrir að hafa í raun lítinn tilgang, nema þá ef vera kynni að keyra hér kreppuna ennþá dýpra og neðar en þörf væri á, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag til lengri tíma litið.  Það er eins og enginn vilji taka að fullu þá erfiðu umræðu um að nauðsynlegt er að afskrifa hér skuldir í stórum stíl, enda stendur eignaverð og verðmætasköpun í hagkerfinu alls ekki undir þeirri skuldsetningu og vaxtabyrði sem til staðar er.  Öll sú umræða er óhjákvæmilega erfið og umdeild, en það breytir ekki því að við verðum að horfast í augu við það vandamál og þora að taka á því!

Ekki skrifa undir ný skuldaskjöl né skilmálabreytingar án fyrirvara

Firringin er alger í bankakerfinu, ekki af því að þar starfi svo vont eða óhæft fólk, heldur miklu fremur af því að það vantar boð að ofan frá þeim sem ráða um það hvernig á að taka á vandanum.  Nú er verið að fá fólk og fyrirtæki til að skrifa undir skuld- og skilmálabreytingar vegna lána sem tekin voru hjá gömlu bönkunum á sínum tíma, til að fresta um sinn afborgunum og greiðslum sem algerlega er vonlaust að standa í skilum með í dag.  Hvers vegna?  Jú, vegna þess að bankarnir sjálfir, stjórnendur þeirra og stærstu eigendur réðust grímulaust að íslensku hagkerfi og þar með fólkinu í landinu – viðskiptavinum sínum – sem tekið hafði lánin í góðri trú og með ráðgjöf bankanna sjálfra að leiðarljósi.  Ábyrgðarleysið og áhættutakan sem viðgekkst í bankarekstri hér á landi er í dag augljós, enda stendur íslenskur almenningur nú í forinni upp að öxlum og ráðamenn tala í fullri alvöru um að hans sé vandinn og ætlast til að fólk beri hér skuldaklafa inní framtíðina eins og ekkert hafi í skorist.  Ég vara mína umbjóðendur við að flækja sig með þeim hætti enn frekar í netinu, enda kunna skuldarar að eiga raunhæfar mótbárur gegn bönkunum, þar sem nú er komið í ljós og staðfest að þeir sjálfir, annar aðilinn í viðvarandi viðskiptasambandi, ekki bara brugðust skyldum sínum, heldur réðust grímulaust gegn fólkinu í landinu með bjáluðum stöðutökum gegn krónunni og alvarlegum mistökum í bankarekstri sem leitt hefur núverandi stöðu yfir íslenska þjóð.

Það er einfaldlega þannig að þegar aðilar eru í viðvarandi viðskiptasambandi (lánasamningur til langs tíma er t.d. slíkt viðskiptasamband), þá hvílir gagnkvæm tillits- og trúnaðarskylda á aðilum.  Þannig getur annar aðilinn skapað sér bótaskyldu gagnvart viðsemjanda sínum ef hann bregst þeirri skyldu og það leiðir til tjóns gagnaðilans.  Nákvæmlega þessi staða er uppi hér á landi nú, gömlu bankarnir hafa algerlega brugðist skyldum sínum í þessu efni og það hefur leitt til gríðarlegs tjóns fyrir viðsemjendur þeirra.  Þetta verður ennþá augljósara í því ljósi að bankarnir eru „ráðandi aðili“ í þessu samningssambandi, bæði í krafti stærðar sinnar og sérfræðikunnáttu, en það er almenn lögskýringarregla í málum af þessum toga að sá sem kemur fram sem sérfræðingur og ráðandi aðili í samninssambandi, þarf að svara ríkari skyldum um tillit við viðsemjanda sinn.  Öll löggjöf varðandi neytendasjónarmið og neytendavernd er m.a. byggð á þessum sjónarmiðum.

Þessu til viðbótar má einnig velta fyrir sér stöðu aðila í samningssambandinu útfrá ákvæðum samningalaga, en þar er að finna ákvæði um forsendubrest og atvik sem leitt geta til þess að samningi sé vikið til hliðar að hluta eða öllu leyti, sem einnig geta almennt fastlega komið til greina í réttarsambandi skuldara og lánveitenda hér á landi í dag.

Í ljósi ofanritaðs tel ég algerlega fráleitt að nýju bankarnir innheimti að fullu skuldaviðurkenningar gömlu bankanna, enda liggur fyrir að sá grunnur sem samningur aðila byggði á hefur verið eyðilagður með aðgerðum gömlu bankanna, æðstu stjórnenda þeirra og eigenda.  Vegna þessa tel ég að nýju bankarnir hafi ekki lagalegan rétt til að krefjast fullrar greiðslu allra þeirra krafna sem þeir halda nú á, enda geta þeir ekki öðlast betri rétt en sá sem þeir leiða rétt sinn frá.  Ég hvet því alla þá sem nú er verið að biðja um að skrifa uppá ný skuldaskjöl að gera það með fyrirvara ef þeir vilja láta reyna á mál sín fyrir dómstólum, enda kunna menn að glata eða a.m.k. minnka mótbárurétt sinn með því að gera ekki fyrirvara um slíkt í nýjum skulda- eða skuldbreytingaskjölum.

Svo má auðvitað að lokum einnig velta fyrir sér lagalegum og siðferðilegum tilgangi ríkisvaldsins með því að endurreisa alla gömlu bankana á rústum þeirra og færa „eignir“ þeirra yfir í nýju bankanna á matsverði sem í mörgum tilfellum er ekki nema lítið brot (20%-60%) af þeim verðmætum sem nýju bankarnir reikna skuldirnar og krefja síðan greiðslna „in full“.  Þær vangaveltur eru hins vegar einar og sér efni í langan pistil.

Hvað er til ráða?

Það er mikilvægt að þeir sem taka ákvarðanir fyrir land og þjóð á þessum dæmalausu tímum, beri gæfu til að horfa til framtíðar – reyna að skyggnast aðeins inn í framtíðina og átti sig á að ekki má taka ákvarðanir í of miklu fljótræði og á grundvelli skammtímasjónarmiða.   Því miður hefur borið nokkuð á slíku á liðnum vikum og mánuðum og nægir þar að nefna yfirtöku Glitnis 10 dögum áður en nauðsyn bar til.  Færa má rök að því að betra hefði verið að ígrunda betur á þeim tíma sem enn var til stefnu, hver áhrifin af slíku inngripi myndi hafa á efnahagskerfið.  Telja verður lykilatriði að það takist að koma hjólum atvinnulífsins í gang aftur og gera rekstrargrundvöll fyrirtækjanna þannig að þau standi undir þeirri skuldabyrði sem á þeim hvílir.  Hið sama gildir um heimilin í landinu.  Það er bara ein leið til þess að þetta megi takast og  hún er sú að skuldabyrði aðila verði með þeim hætti að þeir standi undir henni.  En hvaða leiðir á að fara til að minnka skuldir?

Við því er ekkert eitt „rétt“ svar og ljóst er að hver sú leið sem verður valin mun verða umdeild.  Það er hins vegar úr ýmsu að moða og nauðsynlegt að velta nú þegar upp sem flestum möguleikum í þessu efni, einfaldlega til að við fljótum ekki sofandi að feigðarósi.  Ein af þeim leiðum sem mér hefur dottið í hug er að byrja á því að taka á vandamálunum með gengistryggðu lánin og stöðva ógnarhjól verðtryggingarinnar, en þessa tvo þætti má telja stærstu dómínokubbana í því ferli sem við er að etja, auk lækkandi eignaverðs í landinu.  Þar sem gömlu bankarnir og eigendur þeirra hafa orðið uppvísir að því að ráðast gegn gengi krónunnar og viðskiptamönnum sínum nánast allt árið 2008, kæmi að mínu áliti til greina að alþingi setti lög sem heimiluðu skuldurum lána í erlendri mynt að skuldbreyta þeim í krónur miðað við gengisvísitölu krónunnar áður en þessar grímulausu árásir hófust.  Þannig yrðu lánin verðsett miðað við þá gengisvísitölu (130-150 stig), framreiknuð til dagsins í dag miðað við vísitölu neysluverðs til að gæta jafnræðis við þá sem skulda í krónum og afnema síðan með lögum vísitöluna til næstu 6 eða 12 mánaða á meðan menn taka afstöðu til þess hverja framtíðarskipan á að gera í þeim efnum.  Verðtrygging er ekkert náttúrulögmál, enda var henni komið á með svolölluðum Ólafslögum, nr. 13/1979.  Fyrir þann tíma höfðu íslendingar lifað ágætu lífi (eins og aðrar þjóðir) án verðtryggingar.  Með þessu yrði blásið nýrri von í brjóst almennings og fyrirtækja og skapaður raunhæfru grundvöllur til að halda áfram að skapa verðmæti í efnahagskerfinu.

Burt séð frá því hverja leið menn kunna að velja við niðurfærslu skulda, þá er mikilvægt að allar aðgerðir verði almennar og gengsæjar og gagnist öllum.  Ég held að seint muni skapast sátt um það í samfélaginu að því verði ráðið til lykta á lokuðum fundum í bönkunum hverjir lifa og hverjir deyja.  Eðlilegast er að allir fái þar sömu möguleika og síðan komi þá í ljós á þeim forsendum hvernig fólki og fyrirtækjum mun reiða af.

Hugmyndum í þessa veru hefur verið mótmælt af hálfu fjármagnseigenda og aðila sem eiga skuldlitlar eða skuldlausar eignir.  Þar spyrja menn; „hvað fáum við þá?“.  Svarið er einfalt.  Með því að taka strax til hendinni með raunhæfum aðgerðum sem virka, er slegið skjaldborg um almennt eignaverð í landinu og þar með unnið að hagsmunum allra fjármagnseigenda til lengri tíma litið.  Fyrir þann sem á 50 milljón króna skuldlausa húseign í dag er það eitt meginverkefnið að vernda þá eign hans og gæta þess að hún verði ekki 15 eða 20 milljóna króna virði eftir eitt eða tvö ár.  Ef menn fara ekki í það að koma hlutunum strax í raunhæfa stöðu, þá mun það leiða til hruns á almennu eignaverði í landinu, e.t.v. mun það svo leiða af sér að erlendir aðilar fjárfesti hér svo í stórum stíl og eignist hérlendar eignir á spottprís.  Hver á að halda uppi eðlilegu eignaverði í landinu ef búið er að hirða stóran hluta eigna landsmanna, á grundvelli núverandi skráningar á skuldum (sem engan vegin stenst sbr. ofanritað) og hundelta eigendur þeirra og gera þá gjaldþrota?  Hver á þá að endurreisa efnahagskerfið og koma hjólum atvinnulífsins í gang?  Það eru einmitt í flestum tilfellum ungt fólk sem skuldar mest og dugmiklir einstaklingar sem hafa staðið í atvinnurekstri og atvinnusköpun, vitaskuld með því að taka lán og eðlilega áhættu samfara rekstrinum.  Einmitt þeir aðilar sem við þörfnumst hvað mest nú til að drífa  áfram hjól efnahagslífsins í þeim tilgangi að skapa hér áfram lífvænleg skilyrði fyrir fólk og fyrirtæki til framtíðar.

Björn Þorri Viktorsson hrl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Þegar þjóðin hafnaði stjórnmálamanni – Endurtekur sagan sig?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?

Orðið á götunni: Verður spútnikframbjóðandinn himnasending kosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“