fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Eyjan

Neðanmálsgrein í fjölmiðlasögunni

Egill Helgason
Þriðjudaginn 10. mars 2009 20:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekki margt sem ég skammast mín fyrir á ferli mínum í fjölmiðlum.

Hann er ekki allur stórglæsilegur, en ég hef ekki gert margt sem mér finnst ég þurfa að blygðast mín fyrir.

Einn er þó sá staður sem ég hefði helst ekki viljað vera á. Þegar ég heyri minnst á hann finn ég vott af aulahrolli.

Fyrir nokkrum árum lét ég dragast á að taka þátt í uppbyggingu fréttastöðvar sem kallaðist NFS.

Ég hafði aldrei neina trú á þessu dæmi. Lá ekki á þeirri skoðun minni. Átti meðal annars samtöl við Pál Magnússon sem þá var forstjóri Stöðvar 2.

Við vorum sammála um að þetta væri rugl sem ætti enga framtíð fyrir sér. Það væri ekkert vit að halda úti sólarhrings fréttaflutningi í sjónvarpi í landi sem telur 300 þúsund manns.

Nær væri að leggja áherslu á gæði en magn.

Stuttu síðar hætti Páll á Stöð  – meðal annars vegna þess að hann var á móti NFS hugmyndinni. Þórhallur Gunnarsson hætti líka.

Ég lét tilleiðast. Þó ekki fyrr en að hafa vera margsinnis fullvissaður um að allt yrði eins og best væri á kosið. Ég fengi minn sérstaka pródúsent og að lögð yrði áhersla á vönduð vinnubrögð. Það má segja að hafi verið sett upp sérstakt leikrit sem gekk út á að sýna mér að hvað þetta yrði allt frábært – það er of löng saga að segja frá því.

Fréttastofa Stöðvar 2 flutti útsendingu sína úr ágætu og sögufrægu stúdíói á Lynghálsi niður í lítið hol, á stærð við tvo bílskúra, í Skaftahlíð þar sem einu sinni var Tónabær.

Ég man að reyndir tækimenn fussuðu og sveiuðu yfir þessu. Þeir höfðu aldrei orðið vitni að svona vitleysu.

Flestir bestu tæknimenn fyrirtækisins – sumir af þeim með bestu samstarfmönnum sem ég hef haft um ævina – voru reyndar skildir eftir í öðru félagi sem varð til á þessum tíma. Það voru slitin tengslin milli fréttamanna og tæknimanna sem höfðu unnið saman lengi – sumir í tvo áratugi.  Þetta var ráðstöfun sem mörgum fannst óskiljanleg. Tengdist líklega einhvers konar bókhaldsævintýrum innan fyrirtækjasamsteypunnar.

Fljótt kom í ljós að ekki stóð steinn yfir steini á NFS.

Sjálfvirkar myndavélar sem voru keyptar í útsendingastúdíóið virkuðu ekki. Sumar drápu einfaldlega á sér, aðrar voru ekki í fókus, það var áberandi litamunur milli vélanna, samstillinguna vantaði.

Þrátt fyrir margtuggin loforð um bætt vinnubrögð gerðist ekki neitt. Þessu hrakaði. Það kom í ljós að pródúsent sem mér var lofað var í mörgum öðrum störfum í leiðinni. Oft féll það í hlut aðstoðarfólks með litla reynslu að senda út þættina.

Fljótlega kom líka í ljós að enginn grundvöllur var fyrir stöðinni. Áhorfið á sjálfan fréttatímann, sem hafði verið flaggskip Stöðvar 2, minnkaði til muna. Sama og enginn var að horfa á annað efni á stöðinni, þáttastjórnendur töluðu út í loftið án þess að neinn tæki eftir – það var raunar Silfur Egils sem var eini þátturinn sem naut nokkurra vinsælda.

Þetta var frekar niðurdrepandi, en fyrirsjáanlegt.

Þátturinn minn var á þessum tíma sendur út úr einu horni á skókassanum – eins og stúdíóið var kallað. Myndgæðin voru hræðileg, hljóðið eins og í dós, gestir mínir sátu við þröngt borð sem hrikti í. Stundum þurfti að grípa í borðið svo það dytti ekki fram af pallinum.

Þegar ég minntist á að þetta borð væri ekki boðlegt var ég sakaður um vanþakklæti. Viku síðar var gerð tilraun til að vefja það með plastfilmu. Um það voru skrifaðir gamansamir pistlar á netinu.

Allri fagmennsku hafði verið kastað fyrir róða – hjá þessu fyrrum stolta fyrirtæki. Miðað við þetta fannst mér ég hafa verið í eintómum lúxus í byrjendabragnum á Skjá einum.

NFS var sjálfhætt eftir nokkra mánuði. Þetta var aldrei neitt annað en rugl. Fréttastofa Stöðvar 2 sendi stutta hríð út kvöldfréttir undir nafni NFS, en allir sem þar störfuðu vildu sem fyrst losna við þetta ónýta vörumerki.

Tjónið var líka ómælt. Tilraunin kostaði óheyrilega mikið fé. Hún rýrði líka álit fréttastofu Stöðvar 2 sem sat uppi í miklu verra húsnæði en áður, með verri aðstöðu og verri fjárhag.

Margir góðir starfsmenn höfðu látið sig hverfa þegar þetta var, aðrir áttu ekki mikla framtíð í bransanum.

Þeirra á meðal var framkvæmdastjóri og einn helsti hugmyndafræðingur NFS sem þó hætti ekki fyrr en hann var búinn að skrifa frægt bréf undir yfirskriftinni Kæri Jón. Þar ákallaði fyrrverandi formaður Blaðamannafélagsins eiganda sinn, Jón Ásgeir, og bað hann að bjarga stöðinni. Stuttu síðar reyndi hann að komast á Alþingi. Það mistókst, hann varð aðstoðarmaður Kristjáns Möller, en nú er taka tvö.

Þetta er lítill kafli í fjölmiðlasögu Íslands, neðanmálsgrein kannski, sem ég rifja hér upp af gefnu tilefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt