fbpx
Þriðjudagur 14.maí 2024
Eyjan

Varðhundar gelta smá

Egill Helgason
Laugardaginn 4. apríl 2009 21:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar réð mann ofan af Akranesi til að rannsaka bankahrunið, ágætan mann sjálfsagt, en með enga reynslu af efnahagsbrotum. Fjárveitingin sem honum var ætluð voru 50 milljón krónur. Hann réð til sín örfáa starfsmen og svo sátu þeir og biðu eftir upplýsingum. Þær komu ekki, enginn gaf sig fram – Fjármálaeftirlitið vildi ekki láta þá hafa neitt.

Í raun er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að það hafi verið ásetningur að rannsaka ekki neitt.

Skipan saksóknarans var hreinræktaður málamyndagjörningur. En það hentaði kannski ágætlega þeim sem réðu ferðinni í síðustu ríkisstjórn.

Við komu Evu Joly til landsins komust hlutirnir aðeins á hreyfingu. Það var ákveðið að fjölga starfsmönnum hjá sérstaka saksóknaranum. Fjárveitingarnar til hans voru stórauknar. Það var ákveðið að Madame Joly yrði ráðgjafi hans. Á hennar vegum hefur franskur endurskoðandi með mikla reynslu af efnahagsbrotum verið að taka saman skýrslu um atburðina hér.

Jón Þórisson sem stóð fyrir komu Evu Joly til landsins var ráðinn aðstoðarmaður hennar – að hennar tillögu.

Ég sé á blogginu að tveir stuðningsmenn fyrri ríkisstjórnar, Vilhjálmur Þorsteinsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, taka saman höndum um að gera þetta allt tortryggilegt. Í máli þeirra birtist ákveðin tregða sem maður óttast að muni færast í aukanna – þótt auðvitað sé ljóst að þarna séu á ferðinni talsmenn gömu valda- og peningaklíkanna sem eru uggandi um hag sinna manna.

Vilhjálmur vísar í greinar sem Jón skrifaði á bloggið hjá mér. Hér má sjá eina þeirra, um Líbýumenn og Kaupþing í Lúx, hér er önnur um Kaupþing og Al Thani og hér er sú þriðja sem fjallar um banka og orkuútrás.

Hannes segir að Eva Joly sé í framboði fyrir öfgavinstrisnna til Evrópuþingsins. Staðreyndin er sú að hún er í framboði fyrir Les Verts, hina grænu, flokk græningja. Umhverfisverndarflokk.

Svo eru til þeir menn sem fárast yfir fjárhæðinni sem Eva Joly fær fyrir vikið.

Lítum á það. Þetta eru 1,3 milljónir á mánuði. Það gera líklega um 8 þúsund evrur, líklega aðeins minna. Það eru varla nein ofurlaun í Evrópu.

Fyrir hrun hefði þessi upphæð verið 600 þúsund krónur íslenskar!

Sérstaki saksóknarinn á að einbeita sér að rannsókn á bönkunum og málum þeim tengdum. Rannsóknin hlýtur að hafa það að markmiði að endurheimta fé og eignir þeirra banka og bankamanna sem hafa gerst brotlegir við lögin. Þetta verður ekki gert nema í nánu samstarfi við aðrar þjóðir, sérstaklega Breta og Bandaríkjamenn.

Í Bandaríkjunum er viðhorf manna, til dæmis saksóknara í máli Bernie Madoff, að það sé mögulegt að endurheimta verulegar fjárhæðir sem Madoff hefur komið undan. Í þessu eru Bandaríkjamenn mjög herskáir og saksóknari Madoffs telur sig ekki eiga annarra kosta völ en að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að ná árangri eins og sjá má hér.

Hér eru menn hins vegar mjög rólegir – meðan skuldirnar falla í stórum stíl á almenning. Líkt og það sé alveg sjálfsagt að hann borgi.

Því hefur verið haldið fram að undanskot bankana og helstu gerenda í hruninu geti numið allt að 1.400 milljörðum.

Það er nokkuð til vinnandi að endurheimta þótt ekki væri nema hluta þessara peninga.

Það er ekki síst mikilvægt við komu Evu Joly að hún býður Íslendingum afnot að víðfemu tengslaneti sínu sem nær út um allan heim. Til dæmis mun hún hafa rætt við Helen Garlick, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Serious Fraud Office í Bretlandi. Garlick var meðal annars viðriðin rannsóknna í má British Aerospace, stórt hneykslismál sem breska stjórnin stöðvaði vegna „þjóðarhagsmuna“.

Nú er sérstakur saksóknari að ráða sér starfslið. Fjárveitingar til embættisins hafa verið auknar og ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að til embættisins verði ráðinn vaskur her sérfræðinga. Eva Joly á að leggja til erlenda aðstoð – en innlenda sérfræðinga þarf líka til verksins, endurskoðendur, lögfræðinga og fólk sem hefur vit á og skilur fjármálagjörninga og bókhald. Harðsnúið lið fólks sem skilur bankaviðskipti.

En það má ekki gleymast að það er ýmislegt fleira sem þarf að rannsaka í íslensku viðskiptalífi. Í því samhengi má minna á að hér er starfandi efnahagsbrotadeild innan lögreglunnar. Hvað ætli menn séu að sýsla á þeim bæ? Og hvenær fer eitthvað að koma frá Fjármálaeftirlitinu?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir hættulega galla vera á örorkufrumvarpinu – „Í ákveðnum tilvikum munu árstekjur öryrkja lækka“

Segir hættulega galla vera á örorkufrumvarpinu – „Í ákveðnum tilvikum munu árstekjur öryrkja lækka“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – ríkisstjórnin er eins og plastpokamaður
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Uppnám varð í breska þinginu skömmu áður en fyrirspurnatími forsætisráðherra hófst

Uppnám varð í breska þinginu skömmu áður en fyrirspurnatími forsætisráðherra hófst
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Reitir kynna áform um uppbyggingu á Kringlusvæði

Reitir kynna áform um uppbyggingu á Kringlusvæði