fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Þeim mun verra, þeim mun betra…

Egill Helgason
Föstudaginn 24. apríl 2009 16:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar þessa grein.

— — —

Annað hrun eða “öfundsverð” endurreisn:
ÞEIM MUN VERRA – ÞEIM  MUN BETRA…

Margir hafa tilhneigingu til að trúa frekar málflutningi manna eins og Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra – af því að hann er ekki í framboði – fremur en síbylju pólitískra farandsölumanna, sem hafa  hagsmuna að gæta í að fegra veruleikann (ef þú ert í stjórn), eða búa til ýkta hryllingsmynd (ef þú ert í stjórnarandstöðu).

Dæmi um ólíkan málflutning af þessu tagi – kortéri fyrir kosningar – eru  annars vegar bjartsýnisboðskapur viðskiptaráðherrans í Mbl.  á sumardaginn fyrsta, þar sem hann boðaði skjóta endurreisn; og hins vegar forspá formanns Framsóknarflokksins um yfirvofandi annað hrun. Við munum örugglega fá að vita, hvor hefur rétt fyrir sér – eftir kosningnar.

Hvers vegna er Gylfi svona bjartsýnn? Hann bendir á að óbærilegar skuldir fyrirtækja, aðallega gömlu bankanna, eru nú kröfur á þrotabú, sem munu hverfa, þegar þrotabúin hafa verið gerð upp. Allar þessar skuldir muni því falla á erlenda lánadrottna, einkum evrópska banka, þ.e. skuldir umfram eignir.

Þar með eru Íslendingar, öfugt við margar aðrar þjóðir, eins og t.d. Bandaríkjamenn, lausir við fársjúkt fjármálakerfi, sem þurfi að halda uppi með því að dæla í botnlausa hít þess peningum skattborgara. Vandamálin væru þar með skilin eftir i þrotabúum hruninna fjármálastofnana.Þess vegna, segir Gylfi, eru Íslendingar í þeirri “öfundsverðu” stöðu að geta komist út úr fjármálakreppunni fyrr en þær þjóðir, sem sitja áfram uppi með sjúkt fjármálakerfi.

Leikhús fáránleikans?

Hvað er maðurinn að segja? Hann er að tala um lán í óláni. Hann er að segja að hrunið hafi, þrátt fyrir allt, verið dulbúin blessun. Þetta rímar við peningamálahagfræði Davíðs Oddssonar og heimatrúboðsins í Seðlabankanum, sem lofar og prísar íslensku krónuna, af því að það er alveg sama hversu illa er fyrir okkur er komið – við getum alltaf reddað okkur með því að fella gengið. Gengisfellingar eru m.ö.o. heillaráð og hrun bankakerfisins “a blessing in disguise.” Þetta er eins og fengið að láni beint út úr leikhúsi fáránleikans, t.d. frá Dario Fo, sem spann sprenghlægilegan farsa út frá þversögninni um, að þeim mun verra sem ástandið væri, þeim mun betra yrði það…

Bjartsýni Gylfa byggist á því að hinir erlendu kröfuhafar – bæverskir bankastjórar og belgískir sparisjóðir – muni möglunarlaust borga brúsann.  Þeir tóku jú þá áhættu að lána íslensku bönkunum offjár (tvöfalt þrotabú Enron) á vægum kjörum. Máttu þeir ekki vita betur? Tóku þeir ekki áhættuna vitandi vits? Höfðu þeir ekki verið varaðir við? Er ekki rétt mátulegt, að þeir taki afleiðingum gerða sinna?  En ætli þetta sé alveg svona einfalt?

Í Mogga í dag (24.04.09) birtist grein um sama efni, þar sem kafað er talsvert dýpra undir yfirborðið. Höfundurinn heitir Jón Jónsson og er kynntur þannig að hann hafi “starfað hjá alþjóðlegum fjárfestingarbanka í þremur heimsálfum og (lifað af ) fjórar lausafjárkreppur.” Hvað leggur hann til málanna? Hann segir að við eigum líf okkar undir því komið, hvernig uppgjöri milli gömlu og nýju bankanna verði hagað. Alþjóðleg matsfyrirtæki (Standard and Poor´s, etc.) munu að lokum leggja dóm á niðurstöðuna með lánshæfismati og úrskurðum um skuldatryggingarálag til nýju bankanna.

Ef matsfyrirtækin lækka matið niður í “ófjárfestingarhæfan” flokk, þá er nýtt hrun yfirvofandi. Höfum hugfast að nýju bankarnir eru í ríkiseign og þ.a.l. með ríkisábyrgð. Fjármunir skattgreiðenda eru því að veði. Ef  allt fer á versta veg, mun gengi krónunnar ekki þola það álag. Við vitum hvaða afleiðingar nýtt gengishrap hefur vegna þess að fyrra gengishrap hefur þegar tvöfaldað skuldir okkar.  Ég býð ekki í það, ef sú saga endurtekur sig.

Vel varðveitt ríkisleyndarmál

Þetta örlagaríka uppgjör milli gömlu og nýju bankanna er best varðveitta ríkisleyndarmál Íslands. Þrotabú gömlu bankanna hýsir bæði eignir og skuldir. Við venjuleg skuldaskil í þrotabúi myndu kröfuhafar fá í sinn hlut það sem sala eigna skilar upp í skuldir, allt samkvæmt jafnræðisreglu. Það má ekki mismuna kröfuhöfum að geðþótta. Það mun þýða lögsókn og málaferli næstu áratugi.

Það flækir málið að á grundvelli neyðarlaga tók íslenska ríkið það sem því þótti nýtilegt úr þroptabúi gömlu bankanna og færði yfir til nýju bankanna. Þetta á við t.d. um innlán sparifjáreigenda (sem eru ríkistryggð) og útlánasöfn. Lögfræðingar hafa sitthvað að athuga við þessar aðfarir ríkisins. Við erum áreiðanlega ekki búin að bíta úr nálinni með það.

Þar fyrir utan er mörgum spurningum ósvarað. Hversu stórir eru nýju bankarnir í hlutfalli við rýrnandi þjóðarframleiðslu? Þetta eru ríkisbankar. Eru þeir eftir sem áður ekki of stórir – þ.e. of áhættusamir – fyrir íslenska seðlabankann (sem varð gjaldþrota í hruninu) og skattgreiðendur til að ábyrgjast? Hvernig eru eignasöfnin, sem nýju bankarnir yfirtóku?

Eru innlendar skuldir íslenskra fyrirtækja allar hjá nýju bönkunum?  Eru ekki 60-70% íslenskra fyrirtækja tæknilega gjaldþrota? Voru innheimtulögfræðingar ekki að spá því um daginn, að tíu fyrirtæki færu á hausinn á dag, út árið? Hvernig er með veðin, sem gömlu bankarnir tóku í óveiddum fiski í sjó, fyrir rausnarlegum lánum til kvótabraskaranna? Eru ekki sjávarútvegsfyrirtækin sokkin í skuldir? Skulda þau ekki meira en sem svarar tvöföldum árstekjum sínum?

*****

Þessar spurningar vekja upp ennþá fleiri spurningar sem kalla á svör: Sitja ekki nýju bankarnir uppi með léleg útlánasöfn? Munu nýju bankarnir ekki þurfa að afskrifa skuldir í stórum stíl? Hversu mikil verða útlánatöpin? Er líklegt að alþjóðleg matsfyrirtæki gefi svona bönkum góð lánshæfisvottorð? Eða er líklegra að nýju bankarnir sitji uppi með íþyngjandi skuldatryggingarálög?  Er ekki líklegt að rökstudd gagnrýni erlendra kröfuhafa kunni að hafa nokkur áhrif á lánshæfismatið?

Er líklegt að seðlabanki lækki stýrivexti sína gagnvart viðskiptabönkum sem hvíla á svo ótraustum grunni? Ef lánshæfismatið útilokar lánsfjáröflun erlendis og erlenda fjárfestingu og vaxtastigið heldur áfram að sjúga það litla eigið fé, sem eftir er í íslenskum fyrirtækjum,  – hvað  er þá framundan? Ég læt lesendum eftir að svara því , hverjum fyrir sig. Eitt er víst:  Endanleg svör munu liggja fyrir nógu snemma – eftir kosningar.

(Höf. átti sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis 1995-97)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki