fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Eyjan

Ranglátt kosningakerfi, pólitísk áhrif

Egill Helgason
Sunnudaginn 3. maí 2009 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur flutti þennan pistil í Krossgötum Hjálmars Sveinssonar í útvarpinu í gær.

— — —

Ég ætla að ræða um kosningakerfið á Íslandi í ljósi kosninganna sem haldnar voru hér á landi um síðustu helgi. Það eru einkum þrjú atriði sem ég tek til umfjöllunar eða

1.    í fyrsta lagi hversu flókið og ólýðræðislegt  úthlutunarkerfi þingsæta er,
2.    í öðru lagi ætla ég að ræða og skýra misvægi atkvæða og
3.    í þriðja lagi að reyna að greina þjóðfélagslegt og stjórnmálalegt samhengi misjafns vægis atkvæða.

Lítum fyrst á hið flókna kosningakerfi.

Við útreikninga er kosningakerfið stillt af þannig að jöfnuður verði milli stjórnmálaflokka og  að þeir fái sama fjölda þingmanna ef þeir fá jafn mörg atkvæði. Þetta er ekki sjálfsagt því í kjördæmaskipulagi verða gjarnan eftir ónýtt atkvæði. Til þess að þetta megi verða eru 10 þingmenn reiknaðir inn á Alþingi, en aðeins 53 eru kjörnir frá kjördæmunum.

Þessir alþingismenn, sem eru reiknaðir inn á þing, buðu sig fram í ákveðnu kjördæmi, en fá í sumum tilvikum ekki tilskilinn fjölda atkvæða í sínu kjördæmi, heldur komast þeir á þing með nýtingu atkvæðaleifa úr mörgum kjördæmum og fara inn á þing þótt aðrir frambjóðendur í sama kjördæmi hafi jafnvel meiri stuðning í kjördæminu en þeir.

Þá veltir maður því fyrir sér hvernig þessir þingmenn rækja ábyrgðarsamband sitt við kjósendur sína sem búa í öðrum kjördæmum. Þá er einnig hægt að velta því fyrir sér hvort úthlutunarreglurnar miði að hluta við að landið sé eitt kjördæmi. Það má halda því fram.

Engu að síður eru allir þingmenn opinberlega kjördæmakjörnir og þeir standa kjósendum þess kjördæmis reikningsskil gerða sinna. Þetta verður sífellt hjákátlegra eftir því sem almenningur knýr frekar á um beint ábyrgðarsamband við þingmennina sína. Almenningur vill geta strikað þingmanninn sinn út og jafnvel raðað að öllu leyti nöfnum á listanum sem hann kýs. Það er ekki alltaf hægt í kosningakerfinu okkar.

Snúum okkur þá að vægi atkvæða.

Eftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hefur gert alvarlegar athugasemdir við vægi atkvæða í íslenska kosningakerfinu. Á Íslandi er vægi atkvæða almennings reiknað fyrir hverjar kosningar út frá fjölda kjósenda á kjörskrám í hverju kjördæmi og við það miðað að það verði aldrei meira en tvöfalt.

Almenningi er síðan tilkynnt að hann hafi tiltekin réttindi í komandi kosningum. Hann hafði í nýliðnum kosningum réttindi 1 ef hann býr í Kraganum, en 1.22 ef hann býr í Reykjavík, 1.49 á Suðurlandi, 1.71 á Norð-Austurlandi og 2.05 á Norð-Vesturlandi.

Það er meginregla í lýðræði og raunar grundvöllur þess, að réttindi allra þátttakenda séu jöfn. Mér vitanlega reiknar engin önnur vestræn lýðræðisþjóð skipulega réttindi íbúa sinna. Og þau er ekki hægt að reikna, enda engin sanngjörn reikningsregla til. Lýðréttindi almennings er hins vegar hægt að virða eða vanvirða.

Ef virða hefði átt rétt allra atkvæða jafnt í kosningunum fyrir viku í kjördæmakerfinu okkar, þá vill svo vel til að nánast stendur á heilum þingmanni í öllum kjördæmum. Það vantar 6 þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu, 4 frá Kraganum og sinn hvorn frá reykjavíkurkjördæmunum. En það er líka 6 þingmönnum ofaukið, 3 þeirra eru frá Norð-Vestur kjördæmi, 2 frá Norð-Austur kjördæmi og 1 frá Suðurkjördæmi.

Ef reiknað er út hvaða frambjóðendur það eru sem eiga að vera á Alþingi ef vægi atkvæða væri jafnt þá er það gert hér þannig, að miðað er við reglur íslenska kosningakerfisins að öllu öðru leyti en hvað varðar vægi atkvæða. Þannig er jafnað milli stjórnmálaflokka, eins og kerfið gerir ráð fyrir. Ég vil taka fram að þetta er til gamans gert, ef þingmönnum landsbyggðarinnar fækkar þá breytast forsendur framboða.

Það má halda því fram að í kosningunum fyrir viku hafi þjóðin kosið eftirfarandi menn til þingsetu, sem misjafnt atkvæðavægi meinar þingsæti: Kolbrúnu Halldórsdóttur og Mörð Árnason frá Reykjavík og Lúðvík Geirsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Helgu Sigrúnu Harðardóttur og Óla Björn Kárason frá Kraganum. Og þá má eins halda því fram að eftirfarandi þingmenn hafi fengið þingmannssæti sín út á misvægið, en ekki með tilstyrk kjósenda sinna. Þeir eru: Unnur Brá Konráðsdóttir í SL kjördæmi, Björn Valur Gíslason og Jónína Rós Guðmundsdóttir í NA kjördæmi og Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson og Ásmundur Einar Daðason í NV kjördæmi. Þetta reiknaði út fyrir mig Valgarður Guðjónsson, sem hefur umsjón með tölvukerfi RÚV við kosningar og þakka ég honum fyrir það.

Það er reyndar eitt atriði í viðbót varðandi vægi atkvæða. Ef stuðningur við þjóðmál fer að einhverju leyti eftir kjördæmum eða landshlutum eða mismunandi sjónarmið eru uppi milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, þá er skekkja í því hvernig þingmennirnir túlka vilja þjóðarinnar, því þá er miðjumaðurinn í stjórnmálum nær sjónarmiðum landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins. Þetta er umtalsverð skekkja og getur þegar svo ber undir leyft minni hluta þjóðarinnar að koma vilja sínum fram á Alþingi, það er að segja að bak við 32 manna meirihluta alþingismanna getur staðið aðeins 42% þjóðarinnar. Við þessu má sjá með auknum meirihluta á Alþingi, en skekkjan er mikil og til að eyða allri óvissu um vilja þjóðarinnar þarf aukinn þingmeirihluta um 11 þingmenn og þarf þingmeirihlutinn því að vera 43 þingmenn.

Snúum okkur nú að þjóðfélagslegu og stjórnmálalegu samhengi þessa máls.

Ójafnt vægi atkvæða er lýðræðiságalli. Hann hefur margháttuð áhrif og getur skekkt sameiginlega ákvarðanatöku þjóðarinnar og valdið margháttaðri spillingu. Verst af öllu er þó að sennilegt er að sérhagsmunir leiti forréttindin uppi og að þjóðin eigi þegar frá líður við að glíma erfiða réttindabaráttu við að draga forrréttindi til baka.

Hvað er ég að segja? Jú, ekki er ósennilegt að það myndist hugmyndafræði sem ver forréttindin og að sú hugmyndafræði sé studd af þeim aðilum sem hafa raunverulegra hagsmuna að gæta, eða sem hafa leitað hagsmunum sínum skjóls úti á landi til að verja þá betur.

Það er orðið svo, sem ekki var fyrir 1-2 áratugum, að allir helstu átakspunktar íslenskra stjórnmála eru milli búsetusvæða. Það hefur annars vegar myndast andstæðir pólar milli einfaldrar verðmætasköpunar þar sem þjóðin lifir af auðlindum sínum og ákveðinnar einangrunarhyggju gagnvart útlöndum sem landsbyggðin styður og hins vegar flóknari verðmætasköpunar, sjónarmiðum sjálfbærni og alþjóðlegrar samvinnu og alþjóðslegs trausts sem höfuðborgarbúar styðja fremur.

Ef þetta er rétt – þá  tekur kosningakerfið sjálft afstöðu í öllum mikilvægustu spurningum íslenskra stjórnmála verðandi framtíðina og hyglar ákveðinni framtíðarsýn og lífsafstöðu.

Kosningarnar til Alþingis 25. apríl s.l. voru því ekki endilega sanngjarnar og réttlátar. Þingmenn sem kjörnir eru á Alþingi endurspegla ekki vilja þjóðarinnar í málum þar sem málefnaágreiningur og hugmyndaágreiningur er á einhvern hátt tengdur búsetu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 1 viku

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar