fbpx
Fimmtudagur 16.maí 2024
Eyjan

Bréf um bændur og ESB, stýrt gjaldþrot, teygjulán og jöklabré

Egill Helgason
Fimmtudaginn 14. maí 2009 12:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jöklabréf og innköllun aflaheimilda

Ég var í samkvæmi um helgina. Þar var maður sem sagðist eiga nokkur hundruð milljónir í jöklabréfum skráð á félag á Tortóla. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gefa tommu eftir, hann hefði jú fjárfest í góðri trú. Stuttu seinna fóru umræðurnar að snúast um afturköllun aflaheimlda. Útgerðarmaður í hópnum hló að þessar ríkisstjórn og sagði að þeir myndu fljótlega ganga á vegg með þetta. Þarna töluðu allir digurbarkalega um að verja rétt sinn og aflandseyjar.

Í dag opnaði ég netbankann minn. Teygjulánið var komið inn (skipti um íbúð rétt fyrir hrun og náði ekki að selja hina). Það sem á að bætast aftan við lánið er sett í reitinn VANSKIL. Mér sortnaði fyrir augum, það hvarf hjá mér öll löngun til að hjálpa þessu landi. Ég hafði jú fengið erlent lán hjá bankanum, en nokkrum vikum seinna hringdi sami bankinn og bað mig um að setja allan sparnaðinn í sjóð 9 því að það væri svo pottþétt.

Ég hef vel undan að borga en löngunin er horfin. Ég hringdi í lögfræðing og ætla að skipuleggja þrot mitt fram í tímann.

— — —

Í böðulshlutverki gagnvart heimilunum?

Þetta var fasteignabóla !!! …. Hvenær verður búið að losa algjörlega um „bóluna“ þ.e. komið fram e-s konar raunvirði fasteigna …..

Líklegast er það Peningamálaspá Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsspá sem svarar því best  …. þ.e. ríkisvaldið er að tala til íbúa þessa lands.

Ca. 25% af raunvirði fasteigna (eigið fé) gufað upp frá okt 2007
Ca. 15-20% (e.t.v. meira??) af raunvirði fasteigna eftir að gufa upp fram til lok árs 2011

Ekki mikil / engin von að gjaldeyrislán lagist næstu ár ….

Margir verða og eða vilja losa sig við fasteignina áður en þeir tapa meiru … en geta ekki selt og munu líklegast ekki geta selt á næstu 2-3 ár og þá er spurt …..

Ef fólk lýsir sig gjaldþrota,  hvað verða þessar fjölskyldur gjaldþrota lengi …. hvað geta þeir elt þessa einstaklinga lengi ……

Hvernig eru íslensk gjaldþrotalög í samanburði við hin Norðrulöndin, Evrópu …. svo ekki sé talað um USA þar sem fólk getur „labbað“ út úr sinni „fasteign“ á skuldbindinga. Eru lögin í USA ekki það eina rétta? Af hverju eru lögin í USA svona?

Hvenær voru íslensku gjaldþrotalögin samnin ……ráðuneytin sömdu lögin með hagsmuni hverra að leiðarljósi??
Hefði ekki verið betra ef nefndir þingsins semdu þess háttar lög?

Getur það verið að vinstri félagshyggjusjórn ætli að vera í „böðulshlutverki“ gagnvart heimilum landsins með mjög úrelt og ósanngjörn gjaldþrotalög?

— — —

Stýrt gjaldþrot og þjóðnýting?

Vildi bara benda þér á það að hafi stýrt gjaldþrot og þjóðnýting verið hin raunverulega áætlun Seðlabankans þá skýrir það fullkomlega allar aðgerðir (eða öllu heldur aðgerðaleysi) hans. Í febrúar eru fengin ráð um hvernig standa skuli að þrotinu og skipta bönkunum upp. Í mars eða apríl er hinn frægi ársfundur IMF þar sem Davíð segir Sigurði Einarssyni í vitna viðurvist að hann muni setja þá alla á hausinn. Í júlí birtist skýrsla eins fremsta bankagreinanda Merrill Lynch þar sem hann segir að aðilar á markaði telji að íslensk stjórnvöld stefni að því að leysa hinn gífurlega skuldavanda íslenska bankakerfisins með stýrðu gjaldþroti og þjóðnýtingu. Hann rekur raunar að sú leið hafi ýmsa kosti til að skera halann aftan af.

Þessi atburðarás skýrir líka hvers vegna Seðlabankinn tók stjórnina helgina 27. til 29. september. Vikuna á eftir birtist Seðlabankastjóri svo í viðtali og útskýrði hvernig þessi þjóðnýting hluta bankakerfisins og afskriftir erlenda hlutans myndi skilja þjóðina eftir nær skuldlausa og vandann erlendis. Sá þáttur áætlunarinnar og erlend viðbrögð þar sem peningasendingar voru haldlagðar og öll greiðslumiðlun stöðvaðist, reyndist veiki hlekkurinn og um framhaldið stóðu mestu átökin.

Átökin í kjölfarið voru um tvær leiðir (þau átök virðast enn í gangi).

Annars vegar að skera nær alveg á sambönd við erlendar þjóðir, byggja á innlendri frumframleiðslu og gjaldeyrishöftum til langframa um leið og leitað yrði eftir lánum frá öðrum aðilum (Rússlandi og jafnvel Kína).

Útkoman hefði mögulega orðið eitthvað minni skuldsetning en nær alveg lokaðir fjármálamarkaðir til langframa og samfélag einangrunar, skammtana og hafta. Þau öfl samfélagsins sem sitja við útdeilinguna gætu að vísu orðið afar sterk eins og við þekkjum úr stjórnmála- og hagsögu síðustu aldar en stöðnun og lakari lífskjör almennings væri staðreynd til frambúðar.

Hins vegar að leita samstarfs við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, lágmarka trúverðugleikatjónið og stefna að opnum alþjóðaviðskiptum eins fljótt og hægt er. Sú leið varð sem betur fer ofan á.

— — —

Bændur og ESB

Í þættinum þínum í gær var rætt um landbúnaðinn í ESB samhengi og þið hélduð því fram að styrkir til lanbúnaðarins gætu orðið svipaðir eftir aðild eins og þeir eru núna. Það tel ég vera all mikil óskhyggja.
Stóru málin í þessu samhengi eru tvö sem þið rædduð ekkert.

Í fyrsta lagi falla niður allir þeir verndartollar sem nú eru til staðar og það er stóra áhyggjuefni bænda og matvælaiðnaðarins. Þar liggur stóra tekjuskerðingin ekki í því hvort styrkirnir verði þeir sömu áfram. Dæmi:  Við erum í dag að framleiða ca. 119 millj ltr. af mjólk á innanlandsmarkað. Eftir að við erum komnir inn í ESB minnkar markaður íslenskra bænda niður í segjum 80 – 90 millj. lítra vegna innflutnings mjólkurvara.  Höggið sem af því yrði er miklu stærra fyrir bændur og iðnaðinn heldur en styrkjamálið.  25% samdráttur í framleiðslu yrði banabiti flestra framleiðenda í landinu.

Hitt vandamálið sem við bændur stöndum frammi fyrir er verslunin í landinu. Hún hefur hreðjartak á allri landbúnaðarframleiðslu í landinu síst þó mjólkurframleiðslunni en þá a.m.k. Ef gengið yrði í ESB þarf að brjóta upp alla verslun í landinu þannig að engin hefði meira en 20% markaðshlutdeild auk þess sem setja þarf strangar leikreglur um það hvernig menn haga sér á þessum markaði.  Við skulum laga þetta fyrst áður en við ræðum ESB. Þetta er grundvallaratriði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Fylgi frambjóðenda – Ekki marktækur munur á Höllu Hrund og Katrínu

Fylgi frambjóðenda – Ekki marktækur munur á Höllu Hrund og Katrínu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Lofa að skrifa aldrei undir lög er varða auðlindir eða náttúru og lífríki Íslands

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Steinunn Ólína – Lofa að skrifa aldrei undir lög er varða auðlindir eða náttúru og lífríki Íslands
Eyjan
Fyrir 1 viku

Linda verður aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Sidekick Health

Linda verður aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Sidekick Health
Eyjan
Fyrir 1 viku

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir

Viðtöl við forsetaframbjóðendur: Jón Gnarr – Mun ekki hika við erfiðar ákvarðanir