fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Bananalýðveldi, grein eftir Jón Baldvin

Egill Helgason
Sunnudaginn 21. júní 2009 20:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ástæða til að vekja athygli á lítilli frétt hjá RÚV í hádeginu s.l. laugardag. Fréttin er svohljóðandi:

“Bandaríski milljarðamæringurinn, Allen Stanford, situr nú á bak við lás og slá, en í gær var hann ákærður fyrir stórfelld fjársvik og peningaþvætti. Segja saksóknarar, að alþjóðlegt fjármálaveldi Stanfords hafi í rauninni ekki verið annað en stórfellt pýramídasvindl.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið birti í gær ákærur á hendur Stanford og sex öðrum, sem eru sakaðir um að hafa aðstoðað hann við að svíkja milljarða dollara út úr viðskiptavinum, sem lokkaðir voru til að fjárfesta í  Stanford-alþjóðabankanum svonefnda, sem staðsettur var á eynni Antigua í Karíbahafinu. Segir í ákærunum, að loforðin sem fjárfestum hafi verið gefin um væntanlega ávöxtun, hafi verið allt of góð til að geta verið sönn.

Dómari féllst í gær á það sjónarmið saksóknara að hætta væri á, að Stanford myndi flýja og var hann því úrskurðaður í varðhald uns mál hans verður tekið fyrir í Houston. Verði hann fundinn sekur af öllum ákærum, gæti hann átt yfir höfði sér 250 ára fangelsisdóm.”

Ef við setjum nöfn bankastjóra Landsbankans, formanns og varaformanns bankaráðs og eftir atvikum nöfn nánustu samstarfsmanna þeirra í staðinn fyrir nafn Stanfords og hinna sex samstarfsmanna hans, þá á fréttin e.t.v. meira erindi við almenning á Íslandi en ætla mætti við fyrstu sýn. Ef orðið Icesave er sett í staðinn fyrir Stanford-alþjóðabankann skýrist málið betur. Og eitthvað hljómar það kunnuglega, þegar sagt er, að hinir amrísku fjárplógsmenn hafi lokkað sparifjáreigendur/fjárfesta til að trúa þeim kumpánum fyrir fjármunum sínum með því að yfirbjóða ávöxtunarkjör keppinauta.

Þótt þessi fréttafrásögn minni um sumt á Icesave, þar sem kjarni málsins er sá, að í báðum tilvikum voru auðtrúa sparifjáreigendur hafðir að féþúfu, þá er ekki allt líkt með skyldum. Það vekur athygli, að amríski bankinn skráði heimili sitt og varnarþing á aflandseyju í Karíbahafinu (í grennd við Tortolu). Það gæti þýtt, að bandarískir skattgreiðendur væru ekki að lögum skuldbundnir til að ábyrgjast innistæður sparifjáreigenda fyrir skúrkana. Því er hins vegar ekki að heilsa í Icesave-málinu.

Forráðamenn Landsbankans völdu, sem kunnugt er, af ásettu ráði að reka sína fjáröflunarstarfsemi sem íslenskt útibú með sparifjártryggingu íslenskra skattgreiðenda. Þannig höfðu þeir, þegar upp var staðið, veðsett íslenska þjóðarbúið fyrir skuldum í erlendum gjaldeyri, sem samsvarar allt að því þjóðarframleiðslu Íslendinga á einu ári. Allt var þetta gert með vitund og vilja íslenskra stjórnvalda, sem var þó í lófa lagið að koma í veg fyrir, að þjóðin yrði féflett með þessum hætti.

Að þessu leyti virðist fjárplógsstarfsemi þeirra Landsbankamanna vera alvarlegra mál en amrísku krimmanna, þar sem Icesave-snillingarnir munu að öllum líkindum  leggja sínar skuldaklyfjar á saklaust fólk.

Svo er annað, sem er allt öðru vísi í Amríku en á Íslandi. Í Bandaríkjunum hafa saksóknarar, í umboði dómsmálayfirvalda, þegar gefið út ákærur á hendur sínum fjárglæframönnum, og reyndar hneppt þá í varðhald þegar í stað til þess að fyrirbyggja hugsanlegan flótta úr landi og förgun sönnunargagna. Amrísku krimmarnir bíða dóms.

Verði þeir sekir fundnir, eiga þeir yfir höfði sér tvær og hálfa öld á bak við lás og slá. Svona er það litið alvarlegum augum af bandarískri réttvísi, verði menn uppvísir að því að níðast á trúnaðartrausti saklausra samborgara sinna. Á því leikur ekki minnsti vafi, að bandarísk stjórnvöld munu gera skýlausa kröfu um að eignir amrísku krimmanna verði gerðar upptækar til þess að bæta hinum saklausu fórnarlömbum skaðann.

Hér lýkur samanburðinum milli bandaríska réttarríkisins og íslenska bananalýðveldisins. Hversu lengi eigum við að bíða enn?

Sjá nánari umfjöllun um Icesave-málið á jbh.is.

Jón Baldvin Hannibalsson

(Höf. var sendiherra Íslands í Bandaríkjunum 1998-2002)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega