fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Erfitt að vera með eða móti Icesave

Egill Helgason
Laugardaginn 27. júní 2009 07:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég verð að viðurkenna að ég á afskaplega erfitt með að taka afstöðu með eða á móti Icesave samningnum. Mig skortir einfaldlega forsendur til þess – jú, og þekkingu.

Það er raunar í meira lagi kaldhæðnislegt að Steingrímur J. Sigfússon skuli sitja uppi með þetta mál og leggja pólitískan feril sinn að veði vegna þess. Því það er öruggt að Steingrímur ber enga ábyrgð á útrásarruglinu sem stjórnmálamaður. Hann varaði alla tíð við þessu og var alveg heill í því.

Fjárhæðirnar eru vissulega ógnvekjandi og vextirnir virka ansi háir. Það er spurning hvort ekki mætti ná hagstæðari samningi? Og það er spurning með eignir Landsbankans, hvernig fer með þær á því tímabili sem Íslendingar hafa til að koma þeim í verð?

En á móti kemur að þótt íslenskur almenningur hafi í sjálfu sér ekki undirgengist þessar skuldbindingar – ég var aldrei spurður –  þá hafa lögformlega kjörin stjórnvöld á Íslandi gert það. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Það er talað um að fara dómstólaleið, en það er erfitt að sjá hvaða dómstóll myndi taka við málinu – Íslendingar virðast til dæmis ekki hafa viðurkennt lögsögu Alþjóðadómstólsins í Haag. Og svo er líka spurning um niðurstöðu slíks dómstóls, yrði hún Íslendingum endilega í hag?

Ég hef ekki þekkingu á alþjóðlegri lánastarfsemi til að vita hverjar afleiðingarnar yrðu ef Íslendingar samþykktu ekki samninginn: Verður það túlkað eins og þjóðin ætli ekki að standa við skuldbindingar sínar? Verðum við utanveltu í alþjóðasamfélaginu fyrir vikið, fáum við ekki þá lánafyrirgreiðslu sem við þurfum á að halda?

Eða myndum við kannski komast upp með þetta?

Það virðast vera sterkar líkur á að Alþingi felli samninginn. Það væri í meira lagi kaldhæðnislegt ef þetta yrði til þess að binda endi á setu Vinstri grænna í ríkisstjórn. Það er þó ekki víst að svo þurfi að vera.

En þá yrði ríkisstjórnin líklega að freista þess að fá Breta og Hollendinga aftur að samningaborðinu. Ég hef áður nefnt þann möguleika að reynt verði að fá einhverja af Norðurlandaþjóðunum til að miðla málum. Annar möguleiki gæti verið að Alþingi samþykkti samninginn með fyrirvörum, til dæmis um höfðun skaðabótamála.

Ég sé reyndar að sums staðar á vefnum skrifa menn að Íslendingar þurfi ekki meiri lán, en það er auðvitað vitleysa. Án eðlilegrar lánastarfsemi er ekkert atvinnulíf og engin nýsköpun. Bankar sem lána peninga á sanngjörnum vöxtum eru einhverjar mikilvægustu stofnanir í hverju samfélagi. Eitt mikilvægasta verkefnið á Íslandi er að endurreisa banka sem geta lánað fé.

Og okkur bráðvantar erlendan gjaldeyri.

Sú leið að loka dyrunum og þreyja þorrann og góuna í nokkurs konar „sósíalisma í einu landi“ er rugl. Svarið við hruninu er ekki að loka sig inni.

Ísland þarf á viðskiptum við umheiminn að halda. Útrásarbilunin breytir því ekki að Íslandi farnast best þegar það á mikil samskipti við aðrar þjóðir. Það sýnir saga okkar allt frá þjóðveldisöld.

Það er talað um að Bretar og Hollendingar muni taka Ísland og íslenskar auðlindir upp í skuld – og að baki lúri Evrópusambandið sem ætli að taka yfir orkulindir okkar og fiskimið.

Ég á eftir að sjá þetta gerast í vestrænu nútímasamfélagi, að fullvalda ríki sé gert upp með þessum hætti – og það af gömlum nýlenduveldum.

Það má margt misjafnt segja um Evrópusambandið, það er mjög skrifræðislegt og hefur komið sér upp flóknu regluverki – aðallega sökum þess að í stóru fjölþjóðlegu samstarfi er mikilvægt að öll löndin fari eftir reglunum – en það starfar ekki eftir leynilegum áætlunum um að knésetja þjóðir eða leggja undir sig auð þeirra.

Ég hef heldur ekki orðið var við að ESB hafi sýnt því sérstakan áhuga að Ísland gangi inn í sambandið.

Spurningin er þá líka hversu virk endurskoðunarákvæði samningsins eru – og svo hvort Íslendingar geti þá jafnvel neitað að borga eftir að greiðslufrestur okkar er runninn út?

Það er að segja ef allt fer á versta veg. Þá höfum við allavega frestað málinu.

En um það má auðvitað ekki tala opinberlega.

Nú liggur tillaga fyrir Alþingi um að Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er um að gera að hafa þjóðaratkvæði um mörg og margvísleg mál. En það er ekki víst að Icesave henti sérlega vel til þess.

Það er kreppa á Íslandi – ólíkt því sem er í flestum nágrannalöndum þar sem nær er að tala um samdrátt – og allt bjartsýnistal þykir út úr kú. Ég ætla samt að halda því fram eftir að hafa verið utan við hringiðu hinnar svartsýnu umræðu á Íslandi í nokkrar vikur að þjóðin verði á leið út úr kreppunni innan fárra missera.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki