fbpx
Föstudagur 03.maí 2024
Eyjan

Gamli sáttmáli

Egill Helgason
Föstudaginn 24. júlí 2009 12:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú tala margir um Gamla sáttmála. Meðal annars Þór Saari í fréttunum í gærkvöldi.

Fæstir virðast hafa kynnt sér út á hvað samningurinn gekk, umfram það sem stóð í þjóðrembingslegum barnaskólalærdómi.

Því Gamli sáttmáli kann að hafa verið ágætur á sínum tíma þegar íslenskar höfðingjaættir bárust á banaspjótum – raunar hefur verið sett fram sú kenning að Gamli sáttmáli sé ekki jafn gamall og talið hefur verið.

Hin þjóðernissinnaða túlkun á Gamla sáttmála hentaði vel á tíma sjálfstæðisbaráttunnar – og í útgáfu Jónasar frá Hriflu af Íslandssögunni. Staðreyndin er samt sú að það er löngu síðar að Íslendingar sökkva djúpt í fátækt og bjargarleysi. Þar var ekki síst um að kenna loftslagsbreytingum, sem höfðu líka mikil áhrif á byggðir norrænna manna á Grænlandi, farsóttum – flest bendir til að íslenskt höfðingjavald hafi verið ekki verið hótinu skárra við alþýðu á Íslandi en erlendir konungar.

Illugi Jökulsson vinur minn skrifaði pistil um Gamla sáttmála í vor:

„Þegar ég var í skóla lærði ég að með Gamla sáttmála íslenskra höfðingja við Noregskóng 1262 hefði orðið skelfilegt stórslys.
Íslendingar hefðu glatað sínu dýrmæta sjálfstæði. Ógurleg erlend kúgun hefði lagst yfir landið. Íslensk alþýða hefði stunið og þjáðst.
Nú síðast var Einar Már Guðmundsson að klappa þennan sama stein í Vikulokunum á Rás eitt í dag. Til að vara við því að við gengjum í Evrópusambandið.
Þessi mynd er reyndar röng. Sagnfræðingar hafa sýnt fram á að í rúm 200 ár eftir Gamla sáttmála hafi Íslendingar ráðið sér meira og minna sjálfir. Hér voru stundum útlenskir embættismenn en þó oftar íslenskir.
Og íslensku höfðingjaættirnar réðu því sem þær vildu ráða.
Það var eiginlega ekki fyrr en Danir og siðaskiptin komu til sögunnar á sextándu sem vald hins útlenska kóngs fór að verða merkjanlegt á Íslandi.
Hér er auðvitað flókið mál sett fram á mjög einfaldaðan hátt, en raunin var nokkurn veginn svona.
Gamli sáttmáli breytti litlu sem engu fyrir íslenska alþýðu. Nema hvað Noregskóngur stillti til friðar eftir að íslensku höfðingjaættirnar höfðu mergsogið landið með erjum sínum og mannvígum. Og hann tryggði siglingar til landsins, þótt stundum yrði misbrestur á því, einkum er fram í sótti.
Alla vega er ástæða til að rifja nú upp Gamla sáttmála, við skulum vita hvort hann hafi verið svo skelfilegur að einhver glóra sé í því fyrir andstæðinga ESB að veifa honum framan í fólk eins og Grýlu.
Sáttmálinn var svona (alveg óháð nýlegum deilum um hve gamall akkúrat þessi texti sé í raun og veru):
Í nafni föður og sonar og heilags anda var þetta játað og samþykkt af öllum almúga á Íslandi á Alþingi með lófataki:
Að vér bjóðum Hákoni konungi hinum kórónaða vora þjónustu undir þá grein laganna, er samþykkt er milli konungdómsins og þegnanna, þeirra er landið byggja.
Er sú hin fyrsta grein, að vér viljum gjalda konungi skatt, og þingfararkaup slíkt sem lögbók vottar, og alla þegnskyldu, svo fremi sem haldin eru við oss þau heit, sem á móti skattinum var játað.
Utanstefningar viljum vér aungvar hafa, utan þeir menn sem dæmdir verða af vorum mönnum á Alþingi í burt af landinu.
[Einnig] að íslenskir séu lögmenn og sýslumenn á landi voru af þeirra ættum, sem að fornu hafa goðorðin upp gefið.
[Einnig] að sex hafskip gangi á hverju ári til landsins forfallalaust.
Erfðir skulu og upp gefast fyrir íslenskum mönnum í Noregi, hversu lengi sem staðið hafa, þegar réttir arfar koma til, eður þeirra umboðsmenn.
Landaurar skulu upp gefast. [Landaurar voru e.k. hafnargjöld sem Íslendingar urðu að borga í Noregi þegar þeir komu þangað siglandi. Þau gjöld voru sem sagt felld niður.]
Slíkan rétt skulu hafa íslenskir menn í Noregi sem þeir hafa bestan haft.
[Einnig] að konungur láti oss ná íslenskum lögum og friði, eftir því sem lögbók vottar og hann hefur boðið í sínum bréfum (sem guð gefur honum framast afl til).
Jarl viljum vér hafa yfir oss meðan hann heldur trúnað við yður, en frið við oss.
Halda skulum vér og vorir arfar allan trúnað við yður, meðan þér og yðar arfar halda við oss þessa sáttagerð, en lausir ef rofin verður af yðar hálfu að bestu manna yfirsýn.“
 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Framboð Viktors gilt
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað

Snorri Jakobsson: Fjárfestar hafa flutt sig af hlutabréfamarkaði yfir á fasteigna- og lóðamarkað
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“

Baldur um viðtalið umdeilda: „Ef ég hefði sagt eitthvað annað, þá hefði ég sagt ósatt“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn

Sigmundur Ernir skrifar: Flestir kjósa til vinstri, líka hægrimenn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben

Orðið á götunni: Katrín græðir tæpast á tengslum við handlangara Bjarna Ben
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón

Jón Sigurður skrifar: Eiga ekki saman Jón og Júróvisjón
Eyjan
Fyrir 1 viku

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar