fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Að semja eða semja ekki, grein Hróbjarts

Egill Helgason
Þriðjudaginn 11. ágúst 2009 11:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hróbjartur Jónatansson lögfræðingur ritar grein um Icesave í Morgunblaðið. Þetta er mjög athyglisverð framsetning. Svona er greinin í heild sinni:

— — —

Í UMRÆÐUNNI um hvort íslenska ríkið beri lagalega ábyrgð á lágmarksinnstæðum í erlendum útibúum Landsbankans virðist mér að flestir þeir sem telja svo ekki vera fjalli um efni og inntak tilskipunar um innstæðutryggingar sem tekin var upp í EES-samninginn með fremur hlutdrægum hætti þegar þeir fullyrða að málið snúist um það að ekki sé kveðið á um það í tilskipuninni að ríkisábyrgð sé á lágmarksinnstæðum heldur sé skylda íslenska ríkisins aðeins bundin við að koma á innstæðutryggingakerfi. Að sönnu segir ekki berum orðum í tilskipuninni að ríkið beri ábyrgð á lágmarksinnstæðunum. Hins vegar fer ekkert á milli mála að tilgangur tilskipunarinnar er að skylda aðildarríki EES til þess að koma á tryggingakerfi sem veitir öllum innstæðueigendum lágmarksvernd án tillits til þess hvar útibú lánastofnunar er staðsett á EES-svæðinu ef gjaldþol lánastofnunar brestur. Tilskipunin veitir samningsríki EES nokkurt frelsi til þess að ákveða fyrirkomulag tryggingakerfisins en það fyrirkomulag sem tekið er upp skal fullnægja réttmætum kröfum innstæðueiganda til þess að fá ótiltæk innlán greidd innan tiltekins tíma. Í tilskipuninni eru engir fyrirvarar um kerfishrun eða slíkar aðstæður. Það er því alveg ljóst af tilskipuninni að tilgangurinn er sá að veita innstæðueigendum lágmarkstryggingu ef lánastofnun verður gjaldþrota, sem sé að hver og einn innstæðueigandi í Landsbankanum geti sótt sínar u.þ.b. 20.000 evrur við gjaldþrot bankans svo dæmi sé tekið.

Í tilskipuninni segir m.a: »Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.« Í þessu felst að aðildarríki EES getur orðið bótaskylt gagnvart innstæðueiganda ef að tryggingakerfi það sem hefur verið innleitt veitir ekki þá lágmarksvernd sem tiltekin er í tilskipuninni. Slík skaðabótakrafa verður aðeins höfð uppi í dómsmáli innstæðueiganda gegn íslenska ríkinu en ekki milli ríkja, eins og ýmsir hafa þó talið vera. Af þessum ástæðum þá myndi í dómsmáli breskra eða hollenskra innstæðueigenda á hendur íslenska ríkinu ekki einungis reyna á þau sjónarmið hvort að í henni sem slíkri fælist ríkisábyrgð á lágmarksinnstæðum, eins og margir telja að málið snúist um, heldur einnig hvort að það tryggingakerfi sem íslenska ríkið kom á með lögum á grundvelli tilskipunarinnar uppfyllir þá skyldu ríkisins að veita innstæðueigendum lágmarksvernd sem kveðið er á um í tilskipuninni. Væri talið svo ekki vera gæti íslenska ríkið orðið skaðabótaskylt gagnvart innstæðueigendunum. Málið er því tæpast eins einfalt og margir vilja vera láta.

Það liggur í augum uppi að það kerfi sem komið var á með lögum um innstæðutryggingar veitir ekki fullnægjandi lágmarksvernd, peningar til þess að greiða lágmarksfjárhæðina til innstæðueigenda Landsbankans í Englandi og Hollandi eru ekki til í tryggingasjóðnum íslenska. Það þarf tæpast að fjölyrða um það frekar. Þær spurningar sem íslenskir dómstólar munu líklega þurfa að svara, verði ekki samið um Icesave, eru, annarsvegar, hvort að íslenska ríkið hafi lögleitt tilskipunina með réttum hætti og, hins vegar, hvort að eftirlit og aðrar aðgerðir íslenskra yfirvalda gagnvart bönkunum til þess að varðveita innstæður almennings hafi samrýmst því fyrirkomulagi á tryggingasjóðnum sem komið var á. En því stærri sem innlánin urðu því ótryggari varð geta tryggingasjóðsins minni til þess að tryggja lágmarksvernd ef illa færi og má því ætla að íslensk yfirvöld hafi borið sífellt ríkari skyldu til þess að hafa öflugt eftirlit með bönkunum eftir því sem þeir stækkuðu. Við mat á bótaskyldu ríkisins hlyti því að koma til rækileg skoðun á aðgerðum íslenskra stjórnvalda varðandi framkvæmd á ýmsum tiltækum stjórntækjum á fjármálamarkaði og eftirlit með starfsemi bankanna, til þess að hefta útþenslu þeirra og möguleika til að ráðstafa innlánum óhindrað.

Af þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir um aðdraganda hruns bankanna virðist svo vera að eftirlit með bönkunum hafi verið algerlega ófullnægjandi og aðgerðir Fjármálaeftirlits og Seðlabankans einkennst af slíku yfirþyrmandi kunnáttu- og dómgreindarleysi að engu tali tekur. Í ljósi þessa er ekki líklegt að íslenska ríkið getið leyst sig frá ábyrgð á grundvelli þess sem á lagamáli heitir »Force Majeure«, þ.e. óvæntra ytri atvika sem engin leið var að sjá fyrir og ekki voru ráðgerð í tilskipuninni. Reikna má með að grundvöllur fyrir viðurkenningu á Force Majeure kæmi því aðeins til greina að sýnt væri fram á að íslenska ríkið hefði rækt hlutverk sitt með góðum og gegnum hætti og bankahrunið og afleiðingar þess hefðu orðið án tillits til frammistöðu ríkisins. Margt af því sem hefur verið upplýst nú í aðdraganda hrunsins veitir manni ekki þá tilfinningu að málstað Íslands yrði auðvelt að verja í slíku dómsmáli.

Sé horft með sanngjörnum augum á hagsmuni breskra og hollenskra innstæðueigenda í Landsbankanum þá fer því fjarri að krafa þeirra um að íslenska ríkið standi við skyldu sína til þess að tryggja lágmarksvernd á innstæðum í bankanum sé ósanngjörn og óeðlileg. Allir þessir aðilar, einstaklingar og lögaðilar, máttu gera ráð fyrir því, m.a. vegna yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda fyrir hrunið, að þeir nytu lágmarks innstæðuverndar og í trausti þess lögðu þeir inn sitt fé til varðveislu i bankanum. Sú tilhneiging sumra íslenskra stjórnmála- og fjölmiðlamanna að líta á íslenska ríkið sem fórnarlamb í ósanngjarnri deilu þar sem alþjóðasamfélagið hefur sameinast um að beita það nauðung til að knýja fram samning um greiðslu íslenska ríkisins á lágmarksinnstæðunum umfram skyldu er að mínu viti aumkunarverð og sjálfmiðuð úr hófi.

Að mínu viti er af tvennu illu heppilegra í ljósi aðstæðna að semja við fulltrúa innstæðueigenda Landsbankans í Englandi og Hollandi um greiðslu á lágmarkstryggingarverndinni fremur en að leggja ágreininginn undir dómstóla. Dómstólaleiðin myndi á endanum líklegast kosta þjóðarbúið meira þegar upp væri staðið. Hitt er svo annað mál að ekki er sama á hvaða kjörum er samið. Það að fela manni sem hefur hvorki lögfræðilega menntun né fljúgandi færni í enskri tungu og enskri menningu, sem kaus sér til bestrar aðstoðar doktorsnema í vísindaheimspeki, til þess að leiða samningaviðræður við Breta og Hollendinga um eitt allra mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar á síðari tímum verður, að mínu viti, að teljast með stærstu mistökum Íslandssögunnar og eru afglöp Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans í aðdraganda hrunsins þar ekki undanskilin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn