fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Fyrirvararnir sem eru ræddir í fjárlaganefnd

Egill Helgason
Fimmtudaginn 13. ágúst 2009 23:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hvílir leyndarhjúpur yfir þeim fyrirvörum sem fjárlaganefnd fjallar um vegna Icesave samningsins. Sagt er að fyrst eigi að kynna Bretum og Hollendingum fyrirvarana sem fjárlaganefnd gerir, áður en málið verður lagt fyrir Alþingi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kallaði þetta „svik við þjóðina“ í fréttum í kvöld, Bjarni Benediktsson virtist tvístígandi, en Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. telja þetta grundvöll að sátt.

Svona líta fyrirvararnir út sem fjárlaganefnd hefur verið að fjalla um. Þeir geta náttúrlega tekið breytingum í meðförum hennar.

— — —

137. löggjafarþing 2009. 

Þskj. 204 — 136. mál.

Breytingartillögur

Við frv. til l. um heimild handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá fjárlaganefnd

1.     Við 1. gr. Greinin orðist svo ásamt fyrirsögn:

Ríkisábyrgð á Icesave-lánasamningunum

Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni.

Ríkisábyrgðin afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna og fyrirvörum þeim sem koma fram í lögum þessum. Fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar.

2.     Við 2. gr. Greinin orðist svo ásamt fyrirsögn:

Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar

Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar samkvæmt lögum þessum eru:

1. Að við framkvæmd lánasamninganna verði þeir túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið, sem samþykkt voru 14. nóvember 2008 á milli Íslands, Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkja, þannig að tekið verði tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

2. Að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð sé aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti. Sama á við um eignir íslenska ríkisins erlendis, þar á meðal eignir Seðlabanka Íslands, sem njóta verndar samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar.

3. Að hvergi sé haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir auðlindum landsins og rétti handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um auðlindanýtingu og skipan eignarhalds á náttúruauðlindum innan lögsögu landsins.

Bætt verði við nýrri grein, 3. gr., svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Endurskoðun lánasamninganna

Ákvörðun um að óska eftir viðræðum um breytingar á lánasamningunum samkvæmt endurskoðunarákvæðum þeirra, skal tekin með samþykki Alþingis. Við þá ákvörun skal m.a. byggt á forsendum ríkisábyrgarinnar og viðmiðum samkvæmt lögum þessum. Meta skal hvort óska skuli endurskoðunar eigi síðar en 5. júní 2015 og skal niðurstaða þess mats lögð fyrir Alþingi fyrir lok þess árs.

Bætt verði við nýrri grein, 4. gr., svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Efnahagsleg viðmið

Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er grundvölluð á að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka þannig að Íslandi sé gert kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Til að fylgjast með og meta forsendur fyrir endurskoðun á samningunum skal ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015 IV. greinar úttekt á stöðu þjóðarbúsins, einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols. Að auki verði þess óskað að í úttektinni leggi sjóðurinn mat á þær breytingar sem orðið hafa miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008.

Við mat á forsendum til endurskoðunar á samningunum skal einnig tekið tillit til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma og mats á horfum í þeim efnum þar sem m.a. verði sérstaklega litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajöfnuðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku.

Greiðslubyrði ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðarinnar tekurmiðaf ákvæðum lánasamninganna, þó þannig að hún verði ekki umfram 3,5% af vergri landsframleiðslu hvers árs.

Bætt verði við nýrri grein, 5 gr. svohljóðandi:

Lagaleg viðmið

Ekki hefur fengis leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES samningsins beri við kerfishrun á fjármálamarkaði ábyrgð gagnvart innistæðueigendum vegna lágmarkstryggingar. Allt að einu hefur Ísland gengið til samninga við Bretland og Holland. Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, í máli um það eða sambærilegt úrlausnarverkefni að slík skuldbinding hvíli ekki á Íslandi eða öðrum ríkjum EES samningsins skal ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif þeirrar niðurstöðu á lánasamninga og skuldbindingar ríkisins.

Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum miðast við það að við úthlutun eigna við uppgjör Landsbanka Íslands hf., eða þrotabús hans, fari eftir íslenskum lögum eins og þau voru 5. júní 2009, þar með töldum lögum nr 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðisins. Ábyrgðin takmarkast við að Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta láti á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innistæðu. Verði þessi niðurstaða á þann veg skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um áhrif þess á samningana og skuldbindingu Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta.

Fari ekki fram viðræður samkvæmt 1. eða 2. mgr. eða leiði þær ekki til niðurstöðu, getur Alþingi takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögum þesusm í eðlilegu samræmi við það.

Bætt verði við nýrri grein, 6. gr., svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Eftirlit Alþingis (þarf að endurskoða miðað við aðrar breytingar).

Fjármálaráðuneytið, viðskiptaráðuneytið og Seðlabanki Íslands skulu reglubundið meta þróun heildarskulda, greiðslubyrði og skuldaþol íslenska ríkisins og þjóðarbúsins, þ.m.t vegna ábyrgðar ríkisins skv. lögum þessum.

Fjármálaráðherrra skal árlega, í fyrsta sinn fyrir 1. mars 2010, upplýsa Alþingi um framkvæmd samninganna og mat skv. 1. mgr. þessarar greinar og b-liðar, 3. mgr. 2. gr. Í skýrslu ráðherra skal m.a. gera grein fyrir hovert endurheimtur eigna í búi Landsbanka Íslands hafi að marki orðið aðrar en gert var ráð fyrir við gerð samninganna (75%), mat lagt á greiðslubyrði sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og hvort aðstæður hafi þróast þannig að virkja skuli endurskoðunarákvæði samninganna.

Við eftirlit fjárlaganefndar með framkvæmd fjárlaga skal m.a. meta hvernig skuldbindingar skv. lánasamningunum og lögum þessum þróast. Nefndin skal hafa náið samstarf við Ríkisendurskoðanda sem skal eiga rétt á öllum nauðsynlegum upplýsingum frá fjármálaráðuneyti, Seðlabanka Íslands og Tryggingasjóði.

Fjárlaganefnd hefur heimild til að leita ráðgjafar frá innlendum og erlendum sérfræðingum vegna eftirlits hennar skv. lögum þessum. Kostnaður vegna þess greiðist úr ríkissjóði.

Bætt verði við nýrri grein, 7. gr., svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Skilmálar ríkisábyrgðar gagnvart Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta

Fjármálaráðherra setur Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta frekari skilyrði vegna ábyrgðarinnar í sérstökum samningi við sjóðinn, einkum varðandi upplýsingagjöf til Alþingis, eftirlit með fjárhag sjóðsins og endurheimtu eigna úr búi Landsbanka Íslands.

Bætt verði við nýrri grein, 8. gr., svohljóðandi ásamt fyrirsögn:

Gildistaka ofl.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðar, að undanskilinni 5. gr. þeirra laga, gilda ekki varðandi þá ábyrgð sem lög þessi ná til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki