fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Áminntur um sannsögli

Egill Helgason
Föstudaginn 28. ágúst 2009 00:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem voru í stjórn Landsbankans máttu vita að ef eitthvað færi úrskeiðis – og líkurnar á því voru mjög miklar strax þegar leið á árið 2007 – myndi skellurinn af Icesave lenda annað hvort á hollenskum og breskum sparifjáreigendum eða íslenskum skattborgurum.

Það var ekki öðrum til að dreifa.

Jón Baldvin útskýrir þetta í þessari grein:

ÁMINNTUR UM SANNSÖGLI…

Kjartan Gunnarsson, fv.vara-formaður bankaráðs Landsbankans fullyrðir í Mbl.grein (14.08.09), að forráðamenn Landsbankans hafi aldrei haldið því fram, “að neins konar ríkisábyrgð fylgdi störfum hans, hvorki í Bretlandi né annars staðar.” Undirsátar Kjartans, bankastjórarnir Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, halda hinu gagnstæða fram. Í bréfi, sem þeir undirrita í nafni bankans til hollenska seðlabankans og FME í sept. 2008, “sögðust (þeir) hafa vissu fyrir því, að íslenska ríkið myndi ábyrgjast lágmarksinnstæður í íslenskum bönkum.

Hvort tveggja getur ekki verið rétt. Hvorum á að trúa, bankaráðsmanninum eða bankastjórunum? Rétt svar varðar gríðarlega almannahagsmuni. Það er því full ástæða til, að sannleikurinn verði leiddur í ljós í réttarsal, þar sem áður nefndir ábyrgðarmenn Icesave-reikningsins, sem nú liggur fyrir Alþingi, verði krafðir svara, áminntir um sannsögli.

Rifjum upp nokkrar lykilstaðreyndir. Upphaf Icesave má rekja til þess, að bankanum var fjár vant til að endurfjármagna skuldasafn sitt. Lánstraustið fór þverrandi, lánalínur lokuðust og skuldatryggingaálög hækkuðu upp úr öllu valdi. Bankinn stefndi þá þegar í þrot, eins og forráðamenn hans fengu staðfest með skýrslu Buiter og Sibert snemma árs 2008, þar sem lýst var spilaborg, sem væri að hruni komin.

Stofnun Icesave-útibúanna í Bretlandi og Hollandi var m.ö.o. örþrifaráð. Frá upphafi var ljóst, að verið var að taka mikla áhættu. Hver átti að bera ábyrgðina, ef illa færi? Bæði bankastjórunum og bankaráðsmönnunum, sem báru sameiginlega ábyrgð á þessum ákvörðunum, var fullkunnugt um, að hinn íslenski tryggingarsjóður innistæðueigenda væri því sem næst tómur. Samt ákváðu þessir menn að stofna útibú á ábyrgð hans.

Blekkingaleikur?

Þótt búið sé að loka heimasíðum Icesave í Bretlandi og Hollandi, má enn rifja upp áhrifaríka markaðssetningu þeirra Landsbankamanna – hina” tæru snilld” eins og Sigurjón Þ. Árnason lýsti henni eftirminnilega – með því að leita inn á web.archive.org. Undir liðnum “financial protection” segja Icesave-menn: Sparifjárinnistæður hjá Icesave njóta verndar “The Icelandic Deposit Guarantees and Investor – Compensation Scheme”. Síðan segir: “Greiðslutryggingin samkvæmt þessu kerfi miðast við fyrstu 20.887. evrurnar (eða sambærilega upphæði í sterlingspundum) á innistæðureikningum hjá okkur.”

Hafi Kjartan Gunnarsson, varaformaður bankaráðsins, rétt fyrir sér um, að Landsbankinn hafi aldrei reiknað með ríkisábyrgð á lágmarkstryggingu innistæðna, þá vaknar ný spurning: Hvernig hann og aðrir eigendur LB í bankaráðinu höfðu hugsað sér að standa við lágmarksskuldbindingar gagnvart viðskiptavinum sínum?

Eignir bankans, einar og sér, hrukku hvergi nærri fyrir skuldum (um 3000 milljörðum í kr., þegar staðið var upp frá veisluborðum). Ætluðu þeir virkilega, vísvitandi og af ásettu ráði, að vísa viðskiptavinum sínum á tóman sjóð og neita síðan allri ábyrgð í krafti heimatilbúinna lögskýringa, eftir á? Ætluðu þessir menn að hafa sparifé af viðskiptavinum sínum með gylliboðum, sem aldrei stóð til að standa við? Undir hvaða grein hegningarlaganna flokkast bankastarfsemi af þessu tagi? Vill ekki einhver lögfræðingurinn upplýsa íslenska skattgreiðendur um það?

Ef Kjartan er hins vegar að segja ósatt, en bankastjórarnir hafa rétt fyrir sér um að þeir hafi haft “vissu fyrir því, að íslenska ríkið mundi ábyrgjast lágmarksinnistæður í íslenskum bönkum,” þá víkur málinu öðru vísi við. Þá var ekki ætlunin að hafa fé af breskum og hollenskum sparifjáreigendum með vísvitandi blekkingum. Þá virðist ætlunin hafa verið sú að framvísa reikningnum til íslenskra skattgreiðenda, ef allt færi á versta veg. Það er aðeins þetta tvennt, sem kemur til greina. Sínum augum lítur svo hver á silfrið, eins og sagt er, þegar að því kemur að meta, hvor kosturinn var verri.

Íslenska fjármálaeftirlitið (FME) vissi sem var, að lágmarksinnistæðutrygging lögum samkvæmt gilti einnig fyrir útibú íslenskra banka, utan heimalandsins, á EES-svæðinu. Þess vegna gerði FME atrennu að því að fá bankastjóra Landsbankans til þess að breyta rekstrarformi Icesave úr útibúi í dótturfélag, án árangurs. Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, hefur í blaðaviðtali sagt, að forráðamenn Landsbankans hafi lofað því að færa þessa áhættusömu fjáröflunarstarfsemi yfir í dótturfélag, en að þeir hafi því miður svikið þetta loforð.

Tvísaga

Skv. skýrslu, sem tekin var saman fyrir hollenska þingið, höfðu hollenski Seðlabankinn og breska Fjármálaeftirlitið svo þungar áhyggjur af því, að íslenska bankakerfið stefndi í þrot, og að hrun útibúanna í Bretlandi og Hollandi gæti hrundið af stað áhlaupi á þeirra eigin fjármálastofnanir – að þau buðust til að taka á sig lögboðna innistæðutryggingu. Þessum tilmælum höfnuðu bankastjórar Landsbankans á þeim forsendum, að þeir hefðu vissu fyrir þvi, að íslenska ríkið “mundi ábyrgjast lágmarkinnstæður í íslenskum bönkum.”

Með yfirboðum og gylliboðum, sem nánar var lýst á heimasíðu Icesave-netbankans, tókst forráðamönnum LB að fá 400.000 einstaklinga í Bretlandi og Hollandi til að treysta sér fyrir umsjá, ávöxtun og endurgreiðslu á 1.244 milljörðum í kr – eittþúsundtvöhundurðfjörutíuogfjórum milljörðum. Þetta slagar hátt upp í þjóðarframleiðslu okkar Íslendinga. Icesave-samningurinn gerir hins vegar ráð fyrir því, að Bretar og Hollendingar skipti reikningsupphæðinni á milli sín og Íslendinga.

Fyrir löngu er ljóst, að forráðamenn Landsbankans brugðust trausti viðskiptavina sinna. Bresk og hollensk stjórnvöld hafa orðið að taka skuldbindingar þeirra á sig. Þessir menn hafa ekki látið þar við sitja. Þeir hafa líka brugðist trausti íslenskra stjórnvalda og um leið íslensku þjóðinni, sem þeir hafa nú framsent reikninginn. Og nú eru ábyrgðarmennirnir orðnir opinberlega tvísaga: Varaformaður bankaráðsins segist bara hafa ætlað að féfletta útlendinga með því að vísa þeim á tóman tryggingarsjóð. Bankastjórarnir segjast að vísu hafa ætlað að koma sér hjá því, með því að framvísa reikningnum til íslenska ríkisins, sem þeir sögðust hafa vissu fyrir að myndi borga lágmarkstrygginguna.

Er ekki tímabært að bæði bankastjórarnir og forsvarsmenn bankaráðsins verði leiddir í réttarsal og látnir svara því – áminntir um sannsögli – hvorir hafi rétt fyrir sér. Væri ekki ráð að spyrja þá í leiðinni, hvað hafi orðið af peningunum? Og hvernig þeir hafi hugsað sér að greiða til baka eitthvað af skuldum sínum, áður en íslenskir skattgreiðendur verða krafðir um borgun fyrir þeirra hönd?Jón Baldvin Hannibalsson


Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki