fbpx
Þriðjudagur 07.maí 2024
Eyjan

Hugmyndir Zingales og Stiglitz um skuldavandann

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. september 2009 15:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daði Rafnsson heldur úti bloggsíðunni Economic Disaster Area þar sem hann skrifar á ensku. Hann hefur verði gestur í Silfri Egils. Daði skrifar þessa grein um hugmyndir til lausnar á skuldavanda heimilanna sem meðal annars mátti heyra í máli Josephs Stiglitz.

Ennfremur má benda á þessa færslu á vefsíðu Daða.

— — —

Gjaldþrot heimilana á markaðstorgi hugmyndanna

Nú er yfirvofandi gjaldþrot á markaðstorg hugmyndanna þegar kemur að lausnum á skuldavanda íslenskra heimila.

Skjaldborg um heimilin hefur reynst skjaldborg um banka. Nú síðast berast fréttir að erlendir kröfuhafar Byrs afskrifi hluta af skuldum sparisjóðsins. Hermt er að nýjir bankar hafi yfirtekið lánasöfn þeirra gömlu með verulegum afslætti. Skyldi það vera vegna þess að kröfuhafar bankanna gera sér grein fyrir því að ef þeir sækja alla skuldina, þá verði útséð um starfhæft fjármálalíf á Íslandi? Á sama hátt stefnir í að heimilishald á Íslandi verði ómögulegt, komi ekki til afskrifta til neytenda.

Tveir þættir gera afskriftir af húsnæðislánum í erlendri mynt nauðsynlegar. Annars vegar hefur hallað mjög á lántakendur í samningum við fjármálastofnanir sem eiga eðli málsins samkvæmt að hafa mun meiri vitneskju um raunverulega stöðu krónunnar og markaða yfirhöfuð. Snemma árs 2008 heyrðist innan viðskiptalífsins hvísl um töfratöluna 180, en þangað áttu bankarnir að vera að stefna gengisvísitölunni. Hvaða möguleika eiga lántakendur gagnvart kerfi sem vinnur á svo ósvífinn hátt gegn hagsmunum þeirra?

Hins vegar er ásælni Íslendinga í erlend lán undanfarin ár og fall krónunnar í kjölfarið, besta sönnunargagn sem við höfum um áralanga hverfandi trú Íslendinga á krónunni og efnahagsstjórn landsins. Atvinnulífið hefur stefnt óljóst að Evru í árafjöld því það gerir sér grein fyrir þeim eyðileggingarmætti sem viðkvæm örmynt í opnu hagkerfi hefur. Þrákelkni fráfarinna ríkisstjórna við að viðhalda krónunni með aðferðum sem eiga við mun stærri myntir hefur skilið eftir sviðna jörð. Skynsamur maður myndi aldrei fóðra mús á sama hátt og fíl, þó það stæði í fræðibókum .

Þess vegna verður einnig að leiðrétta þá hrikalegu lífskjaraskerðingu sem verðtryggð íslensk lán fela í sér. Hagfræðingum á borð við Guðmund Ólafsson er tamt að slá ryki í augu almennings með samlíkingum við hrossakaup, s.s. að skila verði tíu hestum fái maður tíu að láni. En hvergi er minnst á þá ábyrgð hrossaeigandans að lána manni heilsuhrausta hesta en ekki bykkjur af grafarbakkanum. Það er lágmarkskrafa neytenda að fá gallaðri vöru skipt út fyrir aðra sem virkar, eða að öðrum kosti fá greitt tilbaka. Að lán aukist um fjórðung á þremur árum, þó fjórðungur hafi verið greiddur af upphaflegri upphæð er skýrt merki um meingallaða vöru sem ber að bæta fyrir.

Á markaðstorgi hugmyndanna hefur verið takmörkuð umferð þegar kemur að lausnum á skuldavanda heimilanna. Framsóknarmenn lögðu til fljótfærnislegt kosningaloforð um 20% niðurfellingu skulda. Þær tillögur skortir dýpt og virðist flokkurinn ekki hafa lagt áherslu á að gefa þeim aukinn gaum, og munu væntanlega ekki huga að þeim fyrr en næstu kosningar nálgast. Einnig verður að segja í fullri hreinskilni að Framsóknarmenn hafa búið svo um hnútana undanfarin ár að vantraust leggst sjálfkrafa á hugmyndir þeirra. Því er nærri ómögulegt að núverandi stjórnvöld fari þessa leið þó þau myndu aldrei orða það svo opinberlega. Hún er því dæmd úr leik þótt hún skjóti alltof oft upp kollinum.

Sjálf stjórnvöld, sem lofuðu skjaldborg hafa hinsvegar sýnt af sér ótrúlegan skort á hugmyndum. Tillögur og tilmæli Gylfa Magnússonar og Steingríms J. Sigfússonar hafa verið á þann hátt að aðeins skuli hjálpa þeim sem brýnast þurfi á lausnum að halda. Ekki fer mikið fyrir gegnsæi í þeim þankagang. Skyldu til dæmis sömu einstaklingar og fengu varúðarsímtöl frá bönkum og opinberum starfsmönnum fyrir hrunið 2008 og gátu  þar af leiðandi komið því undan sem hægt var, eiga greiðari aðgang að lausnum en aðrir? Pukur er ekki til þess vaxið að byggja upp traust, en meira um það síðar.

Fyrir stuttu reið á vaðið Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði og leggur til tekjutengda afborgun lána. Stuðst er við hugmyndir íslenskra hagfræðinga sem eru svo heppnir að búa erlendis og hafa tekjur sínar í stöðugri mynt. Einu mælitæki þessara manna virðast vera makróekónómísk því lítinn skilning sýna þeir á rekstri heimila. Notast er við tekjutengda afborgun á námslánum í dag og þeir sem standa í slíku vita vel að þar er ekki allt með felldu heldur. Til dæmis er horft á tekjur síðasta en ekki núverandi árs þegar afborganir á námslánum eru ákvarðaðar. Og eins og þeir þekkja sem borga afverðtryggðum námslánum vex höfuðstóllinn eins og óseðjandi skrímsli á meðan rembst er við að greiða þau niður.

Það eru til fleiri hugmyndir en það er flókið verk að kynna nýjar vörur á téðu markaðstorgi fyrir auglýsingaskrumi. Ein sem litla sem enga athygli hefur fengið en er þó mun betur ígrunduð en flestar aðrar er Zingales-áætlunin. Luigi Zingales er prófessor við Chicago háskólann og hefur lagt til að bankar og skuldarar semji með sér um ákveðið hlutfall af afskriftum, t.d. 30-50%. Í staðinn hlýtur bankinn 30-50% af söluhagnaði eignar viðkomandi ef hann selur hana í framtíðinni. Þetta er grunnurinn að áætlun  Zingales en auðvelt er að bæta við hana viðeigandi dýpt. Hugmyndin snýst um að fjármálastofnanir og lántakendur geri með sér samkomulag um von til framtíðar, til handa beggja aðila. Nákvæmlega eins hugmynd reifaði hagfræðingurinn Joseph Stiglitz á fundi í Háskóla Íslands í vikunni, án nokkurra viðbragða fjölmiðla enda sátu þeir flestir fyrir utan salinn og biðu eftir að spyrja hann fyrirhafnalítilla spurninga.

Og þar er komið að kjarna málsins. Íslenska fræðimenn og stjórnmálamenn hefur hingað til skort illilega að gefa okkur lausnir sem gefa fólki slíka trú á íslensku efnahagslífi að það hafi áhuga á að byggja sér hér framtíð, stofna fyrirtæki og ala upp kynslóðir til framtíðar. Þær heimatilbúnu lausnir sem hingað til hafa fengið að njóta sviðsljóssins eru rislitlar í samanburði við tillögur Zingales og Stiglitz.

Það er tími til kominn að forða gjaldþroti á markaðstorgi hugmyndanna.Þó að Framsóknarmenn hafi hátt um sína leið er hún þó hugsuð til heimabrúks. Þó að Þórólfur Matthíasson vilji eflaust vel er engin lausn fólgin í tillögu hans. Það er kergja á markaðinum því traust skortir milli skuldara og lánveitenda vantar. Leita þarf leiða sem leiða saman hagsmuni beggja til framtíðar. Skoðum leiðina sem Zingales og Stiglitz hafa stungið uppá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Fjármálaráð gefur verkum ríkisstjórnarinnar falleinkunn

Orðið á götunni: Fjármálaráð gefur verkum ríkisstjórnarinnar falleinkunn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Misheppnuð tilraun snýst um prinsipp
Eyjan
Fyrir 1 viku

Halla Hrund bætir enn við fylgi sitt og fylgi Katrínar minnkar

Halla Hrund bætir enn við fylgi sitt og fylgi Katrínar minnkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Stórskaðlegur og bannaður nagladekkjadans dunar áfram – Tugir deyja, ekkert mál?